Þriðjudagsblogg í fyrsta sinn í lengri tíma!
Mikið svakalega var erfitt að fara á fætur í morgunn. Samt fór ég snemma að sofa og allt! Það er bara eitthvað við janúar og febrúar sem gerir það að verkum að fótaferðartíminn verður hreinasta kvöl. Mér sýnast enda veikindi í vinnunni vera með mesta móti án þess að ég vilji meina að þarna sé endilega orsakasamhengi á milli, en fylgni er það engu að síður. Ekki ólíklegt að hér sé um sömu orsökina að ræða, kulda, snjó, myrkur og drunga sem valdi hvoru tveggja.
Ég hef svolítið verið að kíkja á Vantrúnna upp á síðkastið og átta mig eiginlega ekki á því afhverju allir eru svona reiðir þar. Ég er reyndar trúleysingi sjálfur en samt reiðist ég ekkert við það að annað fólk sé trúað. Helst að mér finnist bjánalegt ef það heldur því fram að það sé heimska að trúa á eitthvað ákveðið(jólasveinana) en ekki eitthvað annað (guð). Þarna á Vantrúnni eru menn hins vegar svo reiðir og forpokaðir að þeir geta varla mætt í giftingu vina sinna og ef þeir mæta er þeim ómögulegt að standa upp með hinum trúuðu. Ég veit ekki…. Sjálfur myndi ég mæta í kirju væru kristnir vinir mínir að giftast, mosku ef þeir væru múslimar og sínagógu ef þeir væru gyðingar. Ég myndi taka þátt í heiðnum blótum og dansa í kringum tótemsúlu, syngja lof anda forfeðranna og krjúpa til lotningar Vishnu. Ef það skipti vini mína einhverju máli og mér finnst engin hræsni í því fólgin að taka þátt í siðum og athöfnum hinna innfæddu (kristnu, vinanna, Elvistrúar o.s.frv.). Með því er maður bara að sýna öðru fólki virðingu, ekki að viðurkenna sannindi trúar þeirra.
Þá er kennarafundurinn að fara að byrja og ég þarf að hætta þessu. May the Force be with you.