Nú er liðinn rúmur mánuður frá því að Paul Ramses var numinn á brott frá fjölskyldu sinni og sendur til ítalíu þar sem hann hýrist núna í flóttamannabúðum aðskilinn frá eiginkonu og nýfæddum syni. Þetta mál virðist gleymt á Íslandi. Ég efast samt um að ég sé einn um að hafa ennþá samviskubit fyrir hönd þjóðarinnar yfir þessari framkomu og bíð enn eftir að gott fólk sem hefur einhver áhrif taki sig nú saman í andlitinu og sameini fjölskylduna á nýjan leik.
Á sama tíma og opnunarathöfn Ólympíuleikanna stendur sem hæst berast líka fregnir af stríðsátökum í Suður-Ossetíu í Georgíu. Þar virðast allir aðilar hafa eitthvað til síns máls og erfitt að henda reiður á atburðarrásinni, sem á rætur sínar að rekja til Sovétríkjanna sálugu. Ég bíð eftir að einhver sem meira vit hefur á málunum skrifi ítarlega fréttaskýringu, því þetta veldur mér áhyggjum þó það sé langt í burtu.
Annars er svo mikið af átökum og hörmungum í heiminum að e.t.v. er bara best fyrir mann með jafn viðkvæmt hjarta og mig að hætta að fylgjast með. Núna áðan þurfti ég að neita nemanda að þreyta próf í HA þar sem viðkomandi hafði ekki klárað verkefnavinnu í námskeiðinu. Þrátt fyrir að allar reglur segðu til um að ég þyrfti að afgreiða málið svona þá fannst mér það mjög erfitt. Samt örugglega ekki jafn erfitt og nemandanum þótti að fá þessar fréttir.