Þá er kominn nýr meirihluti í Reykjavík og ekki byrjar ferill hans glæsilega. Varamaður Óskars segir skilið við flokkinn, Gísli Marteinn flýr til útlanda og Ólafur F. sakar nánast alla Sjálfstæðismenn um að vera lygara og eiðbrjóta. Hvað er satt og rétt í þessu öllu saman á eflaust eftir að koma í ljós einhvern daginn en þangað til hljótum við að hafa varann á að trúa nokkru sem þetta fólk segir.
Sumt finnst mér þó frekar ósanngjörn gagnrýni, t.d. að það sé eitthvað athugavert við það að Gísli Marteinn haldi áfram sem borgarfulltrúi þó hann fari til útlanda í nám. Það hafa fleiri gert og jafnvel sinnt öðrum veigamiklum störfum meðfram því að vera borgarfulltrúar. Það merkilega við þetta er líka það að skítkastið í Gísla kemur fyrst og fremst frá öðrum Sjálfstæðismönnum.
Önnur ósanngjörn gagnrýni snýst að Óskari frammara fyrir að hafa ekki haldið áfram samstarfi við Tjarnarkvartetinn. Það má öllum vera ljóst að hann og Ólafur F. geta ekki unnið saman og spurning hvort einhver geti unnið með Ólafi F. eftir þetta borgarstjóraævintýri hans. Ég spái því samt að hann fái nógu mikið samúðarfylgi til að fljóta inn í borgarstjórn aftur í næstu kosningum.
Þriðja ósanngjarna gagnrýnin, og e.t.v. sú ósanngjarnasta, finnst mér þó vera sá orðaleikur sem nú birtist í skrifum og viðtölum við borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins þar sem þeir reyna að gera fulltrúa VG og Samfylkingar (og jafnvel Margréti Sverris) samseka sér í Reykjavíkurruglinu síðustu mánuði. Ég sé ekki annað en að þeir fulltrúar hafi komið hreint og beint fram og talið sig vera að mynda góðan meirihluta með Birni Inga þangað til Ólafur F. hljópst undan merkjum. Það er líka mjög undarlegt að telja síðustu tvö meirihlutaskipti eiga eitthvað skylt við þau fyrstu.
Hins vegar sé ég að moggabloggarar fylkja liði í stuðningi við þennan nýja meirihluta og það segir líklega meira um hann en mörg orð. Nú þarf ekkert nema stuðningsyfirlýsingu frá Hannesi Hólmstein til að reka naglann í líkkistuna.