Þá er ég búinn að fá betri upplýsingar um þessa sögu af Hannesi Hafstein sem ég var að minnast á í gær. í ljós kemur að þeir voru ekki tveir í bátnum heldur sex og Hannes sá eini þeirra sem var syndur. Bretarnir munu hafa hvolft bátnum og Hannes og tveir af bátsverjum komist á kjöl. Fylgdust menn með þessu úr landi og skutu út tveimur bátum en þá björguðu Bretarnir Hannesi og mönnunum tveimur. (Enn varpa ég fram þeirri spurningu afhverju þeir gerðu það? Ef þeir voru að reyna að drepa hann hefði þeim verið það í lófa lagið þó svo að fleiri bátar væru á leiðinni. Ég dreg þá ályktun að bátnum hafi hvolft fyrir slysni en ég gæti haft rangt fyrir mér.) Hitt er staðreynd að Sjálfstæðismenn fara með þessa sögu eins og goðsögn sem sanni afreksverk dýrlings þeirra. Enn sé ég samt ekkert í sögunni til að hreykja sér af. Þar að auki skil ég ekki afhverju Hannes er Sjálfstæðismönnum svo kær. Sjálfstæðisflokkurinn var ekki einu sinni til 1904. Nema þeir líti upp til hans þar sem hann var höfðingjasleikja, pólitískur refur og valdapotari og það eru jú karaktereinkenni sem virðast vera kær Sjálfstæðismönnum.
Annars vil ég skora á alla að líta á Almenninginn og skrifa upp á þessa áskorun. Ég var búinn að blogga um þetta eftirlaunafrumvarp mánudaginn 15. desember og kallaði þá eftir einhverjum aðgerðum. Ég dáist að fólki sem tekur sig til og gerir eitthvað í svona málum. Sjálfur er ég of duglaus og latur til að gera það.