Ég var að hringja á bifreiðaverkstæðið áðan og að öllum líkindum er vélin í bílnum mínum ónýt. Viðgerð upp á 80 – 100 þúsund. Manni finnst nú jafnvel þegar bílar eru komnir á þennan aldur (8 ára) og farnir að bila svona að það taki því ekki að gera við þá og best sé að kaupa nýjan. Verst að ég hef hvorki efni á að láta gera við hann né kaupa mér nýjan. Ætli maður verði ekki bara að fara að nota strætó. Veit ekki einu sinni hversu raunhæft það er hér á Akureyri!
Enn eru menn að röfla um forsetann og völd hans eða valdaleysi, endurskoðun stjórnarskrárinnar og klúður sænska kóngsins í Brunei. Ég varpa hér fram minni hugmynd. Best er að kjósa löggjafar og framkvæmdavaldið sér í sitthvorri kosningunni. Eðlilegast er að þingkosningar væru með því móti sem þær eru nú en til framkvæmdavalds kysu menn uppstillingu að ríkisstjórn þar til ein hefði fengið hreinan meirihluta. Á Alþingi myndu menn svo kjósa forseta Alþingis sem jafnframt yrði forseti Íslands. Ég tel að best væri að Alþingi og ríkisstjórnin skipuðu dómara í sameiningu. Þ.e. dómsmálaráðherra gæti ekki skipað dómara án samþykkis alþingis og alþingi ekki án samþykkis dómsmálaráðherra. Þetta er nú bara mín skoðun og þið þurfið ekkert að hafa mín orð fyrir því að þetta sé best svona.
Afmælið hans Dags í gær var mjög skemmtilegt og mikið gaman. Gulla bakaði helling af pizzum og það er enn ein eftir sem ég ætla að borða þegar ég kem heim. Slurp!