Gamalt og gott

Fyrst ég er nú að vitna í­ eldri blogg þá finnst mér tilvalið að endurbirta þetta. Hluti af bloggfærslu frá 28. janúar 2004:

Annars er bankakerfið mér hugleikið þessa dagana. Dag eftir dag birtast auglýsingar í­ öllum miðlum sem eru ekki um neitt en eiga að skapa einhverja í­mynd fyrir fyrirtækin. Þetta eru rándýrar auglýsingar sem segja mér ekki neitt nema að bankarnir vita ekkert hvað þeir eiga að gera við ofurhagnaðinn. Ekki dettur þeim í­ hug að koma honum til viðskiptavinanna! Einhver banki (Íslandsbanki minnir mig) var nú samt að lækka vexti á verðtryggðum lánum um 0,6% eða eitthvað álí­ka og hinir eiga lí­klega eftir að fylgja í­ kjölfarið. Það er hins vegar opinbert leyndarmál að bankaviðskipti snúast um að fá fólk til að skulda bönkunum sem mest og hirða af þeim sem hæsta vexti. Verst að ég áttaði mig ekki á þessu strax í­ barnæsku. Lengi hélt ég að bankinn minn (Iðnaðarbankinn) væri vinur minn og bæri hag minn fyrir brjósti. í dag veit ég að þetta er rangt. Bankarnir reyna að læsa klónum í­ börnin með Latabæjarreikningum, mörgæsasparibaukum o.s.frv. Unglingar eru farnir að fá debetkort til að venja þá við kortanotkun og deyfa hjá þeim kostnaðarvitund og um leið og þeir verða fjárráða eru þeir flæktir í­ net kreditkorta og yfirdráttar. Gerum börnin háð bönkunum og þá er hægt að mergsjúga úr þeim vaxtatí­undina þegar þau eru orðin fullorðin. Alveg til dauðadags. Ég veit um fimm ára stúlku sem spyr alltaf af því­ þegar hún hittir fólk við hvaða banka það skiptir. Hún er nefnilega með Latabæjarreikning hjá KB-banka. Þar að auki eru bankarnir farnir að bjóða upp á eignalí­feyri sem snýst um það að þegar þeir eru búnir að hirða stóran hluta launa þinna allt þitt lí­f í­ vexti af skuldum þá bjóðast þeir til að hirða eignirnar af þér lí­ka svo börnin fái nú örugglega ekki neitt og geti sökkt sér í­ enn dýpra skuldafen en foreldrarnir! Hvað mig varðar finnst mér þessi starfsemi siðlausari, ógeðfelldari og meira mannskemmandi en dópsala. Samt eru þessu jafnvel hleypt inn í­ skóla og enginn gerir athugasemd við tugsí­ðna litprentuð auglýsingablöð (eins og í­ tilfelli KB (en siðleysi þeirra endurspeglast enn betur í­ því­ að þeir sjá ekkert athugavert við að stela þessari skammstöfun)) sem berast inn um lúgur allra landsmanna. Á mí­nu heimili var þessu blaði komið beina leið í­ ruslið áður en aðrir heimilismenn uppgötvuðu óþverrann. Ef ég væri ekki svona stórskuldugur við bankann minn (ástand sem er hægt að rekja beint til breytinga Sjálfstæðismanna á LíN á sí­num tí­ma (með stuðningi Össurar Skarphéðinssonar)) þá myndi ég geyma alla mí­na peninga í­ læstum peningaskáp inni á mí­nu eigin heimili (eða í­ eignum). Nú er hins vegar svo komið að maður getur ekki einu sinni fengið launin sí­n án þess að þau fari í­ gegnum einhvern banka sem getur hirt sitt af þeim í­ formi þjónustugjalda o.s.frv. Þessar stofnanir eru blóðsugur á mannlegu samfélagi og bankastjórarnir verða þeir fyrstu upp að veggnum þegar byltingin kemur!

Lokaorðin finnast mér sérstaklega skemmtileg í­ ljósi nýliðinna atburða. Það á samt enn eftir að skella þeim upp að veggnum, en það kemur að því­.