Tilraunir eru áhugaverðar. Þær eru framkvæmdar í þeim tilgangi að komast að því hvort einhver kenning eða hugmynd standist/virki eða ekki. Tilraunin mistekst ef engin niðurstaða fæst en tekst ef útkoman annaðhvort styrkir eða fellir hugmyndina.
Borgarahreyfingin er dæmi um tilraun sem tókst. Það sem átti að reyna var hvort hægt væri að breyta stjórnmálum á Íslandi, gera upp Davíðshrunið, bæta samfélagið (og pólitíkina) þannig að við byggjum við réttlátara og heiðarlegra kerfi en áður. Niðurstaðan hefur sem sagt fengist: Það er ekki hægt, a.m.k. ekki með þeim leiðum sem kerfið býður upp á.
Ég skrifaði í færslu um daginn að allir ættu rétt á því að fá séns. Núna er Borgarahreyfingin búin að fá séns og annan fær hún ekki. Eitt atriðið á stefnuskrá hreyfingarinnar var: „Borgarahreyfingin leggur sig niður og hættir störfum þegar þessum markmiðum hefur verið náð eða augljóst er að þeim verður ekki náð.“
Markmiðin voru:
• Neyðarráðstafanir í þágu heimila og fyrirtækja
• Landsmenn semji sjálfir sína eigin stjórnarskrá
• Trúverðug rannsókn á íslenska efnahagshruninu fari af stað undir stjórn óháðra erlendra sérfræðinga og fari fram fyrir opnum tjöldum. Frysta skal eignir grunaðra auðmanna strax meðan á rannsókn stendur
• Lýðræðisumbætur strax
• Lögfest verði fagleg, gegnsæ og réttlát stjórnsýsla.
Ekkert af þessum markmiðum hefur náðst og ljóst að núverandi þingmenn Borgarahreyfingarinnar eru vanhæfir um að ná þeim. Það væri því brot á stefnuskrá hreyfingarinnar að leggja hana ekki niður.
íðan var ég á fundi með þeim kjarna fólks sem vann að framboði Borgarahreyfingarinnar hér á Akureyri. Innan þess smáa hóps var fólk mjög ósammála um hvað bæri að gera, mjög mismunandi mat á því hvernig þinghópurinn hefði staðið sig og enn skiptari skoðanir á því hverju væri um að kenna að svo fór sem fór. Um eitt var þó alger samstaða, þ.e. að ástandið væri mjög slæmt.
Ég vil taka það fram að ég hef mikið álit á öllu þessu fólki sem vann að heilum hug að framboði Borgarahreyfingarinnar í Norðaustur-kjördæmi en ég er algerlega ósammála þeim um framtíð hennar.
Ég er mjög ánægður með að hafa tekið þátt í þessari tilraun. Mér fannst hún mikilvæg og það finnst mér enn. Niðurstaðan er önnur en ég hafði vonast til en núna veit ég það a.m.k. að það er ekki hægt að breyta kerfinu innan frá. Tilraunin tókst en tilraunadýrið lést.
Ég sagði mig úr Borgarahreyfingunni áðan. Ég óska þeim sem ákveða að starfa áfram innan hennar velfarnaðar og vona að þau verði ekki fyrir jafn miklum vonbrigðum og ég þegar þau átta sig á niðurstöðu tilraunarinnar. Það versta væri náttúrulega ef þau taka ekki eftir henni.