Hér er hægt að lesa annan kafla draga að nýrri stjórnarskrá sem fjallar um mannréttindi og náttúru.
Ég ætla ekki að skrifa þetta allt upp aftur. Megnið af þessu er gott og ég vil sérstaklega minnast á nokkur atriði sem mér finnast frábær.
„Allir hafa meðfæddan rétt til lífs.“
„Öllum skal tryggð … vernd gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi“
„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir í málum sem það varðar.“
„Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eiga rétt á að tjá hugsanir sínar.“
„Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.“
„Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga.“
„Öllum skal tryggður réttur til að safnast saman án sérstaks leyfis, svo sem til fundahalda og mótmæla.“
„Öllum skal með lögum tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis.“
„Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.“
„í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.
Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.“
„Herskyldu má aldrei í lög leiða.“
„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.“
Það má taka fram að í greininni um auðlindirnar er talið upp hvaða auðlindir það eru sem eru skv. þessu í þjóðareigu.
í þessum kafla finnst mér samt mjög mikið af svona setningum:
„Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.“
„… nema almenningsþörf krefji.“
„Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.“
„Heimilt er í lögum að takmarka aðgang að vinnuskjölum enda sé ekki gengið lengra en þörf krefur til að varðveita eðlileg starfsskilyrði stjórnvalda.“
„Frelsi til að rækja trú eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.“
„Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.“
„Réttur þessi skal ekki háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.“
„Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum ef almannahagsmunir krefjast.“
Sem sagt svolítið mikið af nema og þó.
Svo eru þarna örfá atriði sem mér finnast skrýtin:
„Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, … Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“
Óþarfa tvítekning.
„Yfirvöldum ber ætíð að vernda borgarana gegn mannréttindabrotum, hvort heldur sem brotin eru af völdum handhafa ríkisvalds eða annarra.“
Yfirvöldum ber s.s. skylda til að vernda okkur fyrir yfirvöldum?
„Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.“
Sko, ritskoðun er bönnuð en samt má sko ritskoða, en bara sumt. Þarna er samt svo loðið orðalag að skv. þessu er hægt að setja mjög svæsin ritskoðunarlög.
„19. gr. Kirkjuskipan
í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar“.
WTF. Grein um kirkjuskipan í stjórnarskrá vestræns lýðræðisríkis á 21. öld! Hef minnst á þetta áður.
„Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.“
Einhver sagði að þetta væri til að húsfélög og annað slíkt gæti starfað. Held það myndi nú alveg vera hægt að hafa húsfélög án skylduaðildar, svo framarlega sem það kæmi fram í lögum um húsfélög að allir eigendur húseignar þyrftu að lúta ákvörðunum þess burt séð frá því hvort þeir væru í félaginu. Þá held ég að flestir myndu nú sjá hagi sínum betur borgið innan félagsins en utan þess. Ég held það sé ekki rétt að setja félagafrelsi hömlur.
„Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.“
Falleg hugsun, en er hægt að skipa fólki að virða eitthvað (nema náttúrulega stöðvunarskyldu)? Væri eins hægt að auka virðingu Alþingis með því að skipa fólki að virða það.
Niðurstaða: Þetta er flottur kafli og flest í honum mjög gott. Það sem ég kroppa í eru smáatriði og á stundum ef til vill bara skætingur. Það breytir því þó ekki að 19. greinin er galin og á ekki heima í stjórnarskrá lýðræðisríkis. Hún er önnur ástæða þess að ég mun ekki geta samþykkt þessi drög í þjóðaratkvæðagreiðslu.