Þá er helgin komin aftur, en ég var nú líka heima í gær. Vaknaði með þennan líka svakalega hausverk og strengi um allan líkamann. Hringdi í skólann og tilkynnti veiklulega að ég kæmist ekki þann daginn og fór svo aftur að sofa. Vaknaði síðan stálsleginn upp úr hádegi og hafði hálfgert samviskubit yfir því að líða svona vel. Ekki skánaði það þegar konan fór að taka til fyrir saumaklúbbinn sem hún var með í gærkvöldi og skipaði mér að fara með flöskur og gömul dagblöð í endurvinnsluna. Þar var ég sem sagt hinn hressasti akkúrat þegar ég átti að vera að kenna þýsku í skólanum! Vona bara að enginn hafi séð mig!
í morgun fór ég svo inn í Freyvang þar sem á að fara að setja upp Ronju ræningjadóttur. Það fyrsta sem ég sá voru náttúrulega tveir nemendur mínir sem virtust hálf undrandi á því að sjá mig þarna svona hressan. Jæja, skiptir ekki máli, það var mjög gaman og kannski fæ ég svo hlutverk og allt. Ætlaði svo kannski að líta á fundinn hjá herstöðvarandstæðingum á Kaffi Amor í dag en var svo settur í að hengja upp jólaljós og greni á húsið. Þetta er allt orðið mjög jólalegt. Annars er ég ekki herstöðvarandstæðingur. Ekki frekar en ég er herstöðvarfylgismaður. Ég er hins vegar stuðningsmaður þátttöku Íslands í NATO (þó þau samtök hafi gert ýmislegt óforsvaranlegt án þess að Íslendingar mótmæltu sem við hefðum átt að gera).
Annars er mér messt niðri fyrir vegna fréttar í Fréttablaðinu um álit umboðsmanns Alþingis um rétt barna. Ég held að ég sé nánast ósammála öllu sem þar kemur fram. Lækkað aldurstakmark barna til ákvarðanatöku um skráningu í trúfélög. Ég er á móti því. Börn eiga ekki að þurfa að ákveða það þegar mörghundruðþúsundkróna fermingarveislur hanga á spýtunni. Friðhelgi einkalífs innan fjölskyldu. Ég er á móti því. Foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum þar til þau verða 18 ára og eiga að hafa fullan rétt til að vita allt sem þeir vilja fram að því (leita að sígarettum, fíkniefnum o.s.frv.). íkvörðunarréttur í persónulegum málum aukist með hækkandi aldri og auknum þroska. Ég er ósammála því. Þvílík vitleysa. Svo er sérstaklega minnst á grunnskóla í sambandi við þetta. Ég veit ekki betur en að grunnskólar taki engar ákvarðanir um persónuleg málefni nemenda nema í samráði við foreldra og það eru þeir en ekki börnin sem hafa þroska og vit til að taka þær ákvarðanir (í sumum tilfellum að minnsta kosti). Tillögur sem varða réttindi barna um samþykkt til þátttöku í vísindarannsóknum o.s.frv. Ég er ósammála. Hvað er eiginlega að? Eiga börn ekki lengur foreldra sem eiga að taka ábyrgð á þeim og sem þau eiga að hlýða? Ekkert helvítis kjaftæði um friðhelgi einkalífsins neitt. „Ég er pabbi þinn og ég kem inn í herbergið þitt þegar mér sýnist og allar meiriháttar ákvarðanir um þitt líf þangað til þú verður 18 ára tek ég!“ Þetta réttindakjaftæði er komið út í algerar öfgar!