Hér er alveg dásamleg bloggsíða.
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: janúar 2004
107546192998032783
Rassgatsvesen. Nú er bíllinn að stríða mér. Farið að hristast og skrölta undir honum pústkerfið. Það merkilega er nú samt að það lagast til muna þegar hann hitnar. Kannski er það ekkert merkilegt þó mér finnist það. Hins vegar tími ég ómögulega að fara að láta gera við hann. Verð bara að keyra hann skröltandi eitthvað fram á vorið.
Ég er að fara að setja upp nýja bloggsíðu helgaða matargerð. Þar ætla ég að skrifa upp hvað ég bý til í matinn fyrir fjölskylduna, birta uppskriftir og myndir. Þar verður sem sagt hægt að sjá allt frá pakkasúpum upp í dýrindis margrétta veislumáltíðir. Þ.e.a.s. venjulegur matur hins venjulega manns. Set inn tengil á það síðar.
107528635708987270
Þá er Blair sloppinn fyrir horn og búinn að eyðileggja breska skólakerfið og brjóta sitt helsta kosningaloforð. í fréttunum á Stöð 2 í morgun var það kallað óáhugavert mál! Það er skelfilegt til þess að hugsa að þetta er maðurinn sem Össur og Ingibjörg líta upp til sem leiðtoga lífs síns.
Annars er bankakerfið mér hugleikið þessa dagana. Dag eftir dag birtast auglýsingar í öllum miðlum sem eru ekki um neitt en eiga að skapa einhverja ímynd fyrir fyrirtækin. Þetta eru rándýrar auglýsingar sem segja mér ekki neitt nema að bankarnir vita ekkert hvað þeir eiga að gera við ofurhagnaðinn. Ekki dettur þeim í hug að koma honum til viðskiptavinanna! Einhver banki (Íslandsbanki minnir mig) var nú samt að lækka vexti á verðtryggðum lánum um 0,6% eða eitthvað álíka og hinir eiga líklega eftir að fylgja í kjölfarið. Það er hins vegar opinbert leyndarmál að bankaviðskipti snúast um að fá fólk til að skulda bönkunum sem mest og hirða af þeim sem hæsta vexti. Verst að ég áttaði mig ekki á þessu strax í barnæsku. Lengi hélt ég að bankinn minn (Iðnaðarbankinn) væri vinur minn og bæri hag minn fyrir brjósti. í dag veit ég að þetta er rangt. Bankarnir reyna að læsa klónum í börnin með Latabæjarreikningum, mörgæsasparibaukum o.s.frv. Unglingar eru farnir að fá debetkort til að venja þá við kortanotkun og deyfa hjá þeim kostnaðarvitund og um leið og þeir verða fjárráða eru þeir flæktir í net kreditkorta og yfirdráttar. Gerum börnin háð bönkunum og þá er hægt að mergsjúga úr þeim vaxtatíundina þegar þau eru orðin fullorðin. Alveg til dauðadags. Ég veit um fimm ára stúlku sem spyr alltaf af því þegar hún hittir fólk við hvaða banka það skiptir. Hún er nefnilega með Latabæjarreikning hjá KB-banka. Þar að auki eru bankarnir farnir að bjóða upp á eignalífeyri sem snýst um það að þegar þeir eru búnir að hirða stóran hluta launa þinna allt þitt líf í vexti af skuldum þá bjóðast þeir til að hirða eignirnar af þér líka svo börnin fái nú örugglega ekki neitt og geti sökkt sér í enn dýpra skuldafen en foreldrarnir! Hvað mig varðar finnst mér þessi starfsemi siðlausari, ógeðfelldari og meira mannskemmandi en dópsala. Samt eru þessu jafnvel hleypt inn í skóla og enginn gerir athugasemd við tugsíðna litprentuð auglýsingablöð (eins og í tilfelli KB (en siðleysi þeirra endurspeglast enn betur í því að þeir sjá ekkert athugavert við að stela þessari skammstöfun)) sem berast inn um lúgur allra landsmanna. Á mínu heimili var þessu blaði komið beina leið í ruslið áður en aðrir heimilismenn uppgötvuðu óþverrann. Ef ég væri ekki svona stórskuldugur við bankann minn (ástand sem er hægt að rekja beint til breytinga Sjálfstæðismanna á LíN á sínum tíma (með stuðningi Össurar Skarphéðinssonar)) þá myndi ég geyma alla mína peninga í læstum peningaskáp inni á mínu eigin heimili (eða í eignum). Nú er hins vegar svo komið að maður getur ekki einu sinni fengið launin sín án þess að þau fari í gegnum einhvern banka sem getur hirt sitt af þeim í formi þjónustugjalda o.s.frv. Þessar stofnanir eru blóðsugur á mannlegu samfélagi og bankastjórarnir verða þeir fyrstu upp að veggnum þegar byltingin kemur!
Annars er veðrið gott og lífið dásamlegt. Ég ætla að fara og láta skjóta í gegnum götin sem ég er með í öðru eyranu eftir helgi. Lífið er dásamlegt ég geri það sem ég vil. Þar að auki virðist ég geta látið enda ná saman þennan mánuðinn. Það gerir tvo mánuði í röð! Ætli þetta geti haldið áfram svona?
BBíB
107520081030635971
Ég er ekki sérstaklega víðförull maður. Hér er kort af þeim löndum sem ég hef komið til:
create your own visited country map
or write about it on the open travel guide
Þetta munu vera 5% af löndum heimsins og ekkert þeirra utan Evrópu. Ég er samt ekki viss um að þetta standist þar sem ég fór til Júgóslavíu áður en hún liðaðist í sundur. Þið getið sjálf útbúið svona kort hér.
107487035364837237
Konur, ef þið elskið mennina ykkar ekki gefa þeim blóm! Karlmenn vilja ekki fá blóm á Bóndadaginn. Viðurkennið það líka ef þið kaupið blóm þá eruð þið að kaupa þau fyrir ykkur sjálfar.
107485868484930264
Hér er ansi hreint áhugaverð grein eftir Magneu Marínósdóttur. Alveg er ég sammála henni um þessi vélhjólagengi Bandidos og Vítisenglana. Magnea ratar hins vegar í talsverðar rökvillur þegar hún reynir að tengja nektardansstaðina við þessi gengi. Ég man til dæmis ekki eftir neinum fregnum sem tengja Goldfinger við þetta. Hún segir t.d. „Ef litið er til þróunar undanfarinna ára virðist ástæðan liggja í augum uppi: Nektardansstaðir hafa skapað skilyrði fyrir starfsemi þeirra.“ Það að eitthvað liggi í augum uppi eru ekki rök. Það liggur líka í augum uppi að Jörðin er flöt og að Sólin gangi í kringum hana. Hún segir líka: „Það gefur þó auga leið að það er erfitt fyrir glæpasamtök að athafna sig ef þau hafa ekki aðgang að löglegri starfsemi til að hylma yfir þá ólöglegu, sem gerir þeim m.a. kleift að stunda peningaþvætti og afmá þannig slóð sína. Nektardansstaðir þjóna þessum tilgangi víðsvegar um heim með beinum eða óbeinum hætti.“ Hér kemur auga leiðin inn í staðinn fyrir í augum uppi. Ekkert betri rök fyrir því. Þó svo að nektarstaðir þjóni þessum tilgangi víðsvegar um heim eru það ekki rök fyrir því að svona hljóti það einnig að vera á Íslandi. Lögleg starfsemi til að fela glæpi getur allt eins verið teppahreinsun, bifreiðaverkstæði eða sjoppa. Hversu mikið sem maður er á móti nektardansstöðum er samt mikilvægt að mótmæla þeim með rökum en ekki dylgjum og órökstuddum ásökunum. Svo fer Magnea að tala um mannsal (sem eru mun betri rök) og bendir á að slíkt tengist mjög oft nektardansstöðum. Það er hins vegar ekki baráttuaðferð gegn mannsali að banna nektardans. Það er glæpur að selja fólk og hneppa í þrældóm ekki að dansa nakinn. Að sama skapi og við bönnum ekki íþróttaskó þó svo að margir þeirra séu búnir til með barnaþrælkun á Indlandi og Indónesíu. Ég tel að það sé mikilvægara að berjast gegn glæpnum (mannsali) en að pirra sig endalaust á nektardansi. Ef fólk er á móti nektardansi sem slíkum á það líka bara að segja það í staðinn fyrir að dulbúa þá afstöðu sína með rökleysum.
107484568436536057
Þá er enn ein vikan að renna sitt skeið á enda. Ótrúlegt miðað við hvað vikurnar þjóta hjá að það skuli enn vera janúar og meira að segja heil vika eftir af honum! Þessa dagana er heldur ekki hægt að komast hjá því að hlusta á alls konar sjálfskipaða sérfræðinga tjá sig um Evrópumeistaramótið í handbolta. Merkilegt hvað allir geta orðið spenntir fyrir því að fylgjast með landsliðinu fara að tapa einhverjum leikjum á einhverju móti í útlöndum. Ég skil þetta ekki. Svo var nú alveg dásamlegt að hlusta á íþróttafréttirnar á Stöð 2 í morgun. Þar var sagt: „Íslenska liðið fékk hvorki við rönd né reist.“ Gott að vita að íþróttafréttamenn séu svona vel að sér í notkun á hvorki-né. Síðar talaði þessi sami íþróttafréttamaður um Snæfellnes, en þann landshluta hafði ég aldrei heyrt um áður þó svo ég hafi átt heima á Snæfellsnesi.
107478061920888736
Það hefur nú aðeins hýrnað yfir unglingunum varðandi Gíslasögu. Við vorum að ræða um heiðurinn í tímanum í morgun og hugmyndir norrænna manna um rétta siðlega hegðun. Orð eins og sómi, heiður og æra eru áberandi í þeirri umræðu. Þetta skildu þau vel og fannst hefndarskyldan alveg sjálfssögð. Þegar ég spurði þau um á hverju við byggðum siðferði okkar í dag var enginn sem mundi eftir kærleikanum og fyrirgefningunni. Við erum sem sagt sömu heiðingjarnir inn við beinið og áður.
Æfingarnar á Ronju ganga vonum framar og í gær æfðum við í búningum í fyrsta sinn (reyndar bráðabirgðabúningum). Mér fannst ég bara taka mig vel út með klút um hausinn í einhverjum sígaunaklæðnaði. Nú vill leikstjórinn endilega að við séum allir með stóra gulllokka í eyrunum og ég sem hef ekki notað götin í eyranu (tvö í sama eyra) í meira en áratug.
Janúar finnst mér alltaf vera leiðinlegasti mánuðurinn. Þessi eini aukadagur, þ.e.a.s. að þeir skuli vera 31 en ekki 30, fer líka alveg skelfilega í mig. Af hverju geta ekki allir mánuðir haft 30 daga? Það er pláss fyrir tvo í viðbót í febrúar! Að vísu yrði það ekki nema 360 dagar í heildina, en þessum sem upp á vantar fyrir heilt ár mætti svona skella inn á milli mánaðarmóta og sleppa því að telja þá með. Ég varpa nú bara fram þessari hugmynd. Ef einhver er hrifinn af henni má sá hinn sami gera hana að sinni mér að sársaukalausu.
Bless, bless í bili.
107468536516356511
í gærkvöldi rigndi og í dag er hitinn vel yfir frostmarki. Hér er því asahláka og glerhált. Samt vonar maður að þetta haldi svona áfram í nokkra daga svo að snjórinn fari. Ég var farinn að hafa verulegar áhyggjur af snjófjöllunum hér í götunni og núna þegar þetta er farið að hopa sýnist mér ég sjá jökulrákir í malbikinu.
Kosningarnar í Færeyjum eru búnar og stjórnarflokkarnir halda sínu og geta haldið áfram veginn til sjálfstæðis. í útvarpinu í gær var verið að tala við fréttaritara útvarpsins í Færeyjum og ljóst að útvarpsmaðurinn gat ómögulega skilið hvernig stæði á því að allir Færeyingar kysu ekki flokkana sem eru að berjast fyrir sjálfstæðinu. Fréttaritarinn var einnig dyggur stuðningsmaður Anfinns Karlsberg og á honum mátti skilja að maðurinn væri nánast dýrlingur þrátt fyrir einhverja fjármálaglæpi fyrir 22 árum síðan. „Allt slíkt er auðvitað löngu fyrnt.“ sagði fréttaritarinn og virtist ekkert skilja í því afhverju maðurinn hefði verið að segja af sér. „Hann skilar mjög góðu búi.“ voru ummæli fréttaritarans. Á fréttum Stöðvar 2 í morgun var hins vegar að skilja að núverandi stjórnvöld hefðu klúðrað efnahagsmálum Færeyja en haldið velli þrátt fyrir það væntanlega vegna þess að naumur meirihluti Færeyinga er hlynntur sjálfstæðisbaráttunni. Hvor túlkunin er rétt veit ég ekki en hitt er áhugavert hvað þessi sjálfstæðisbarátta Færeyinga virðist skipta okkur Íslendinga miklu meira máli en þá sjálfa. Fyrir marga Færeyinga er sjálfstæðið ekkert forgangsmál og tæpur meirihluti þeirra virðist meira að segja vera á móti því! Þetta er erfitt fyrir flesta Íslendinga að skilja.
Ég kveð þá héðan úr snjónum (sem er að hverfa) í bili.
107460803597969103
Þriðjudagsblogg í fyrsta sinn í lengri tíma!
Mikið svakalega var erfitt að fara á fætur í morgunn. Samt fór ég snemma að sofa og allt! Það er bara eitthvað við janúar og febrúar sem gerir það að verkum að fótaferðartíminn verður hreinasta kvöl. Mér sýnast enda veikindi í vinnunni vera með mesta móti án þess að ég vilji meina að þarna sé endilega orsakasamhengi á milli, en fylgni er það engu að síður. Ekki ólíklegt að hér sé um sömu orsökina að ræða, kulda, snjó, myrkur og drunga sem valdi hvoru tveggja.
Ég hef svolítið verið að kíkja á Vantrúnna upp á síðkastið og átta mig eiginlega ekki á því afhverju allir eru svona reiðir þar. Ég er reyndar trúleysingi sjálfur en samt reiðist ég ekkert við það að annað fólk sé trúað. Helst að mér finnist bjánalegt ef það heldur því fram að það sé heimska að trúa á eitthvað ákveðið(jólasveinana) en ekki eitthvað annað (guð). Þarna á Vantrúnni eru menn hins vegar svo reiðir og forpokaðir að þeir geta varla mætt í giftingu vina sinna og ef þeir mæta er þeim ómögulegt að standa upp með hinum trúuðu. Ég veit ekki…. Sjálfur myndi ég mæta í kirju væru kristnir vinir mínir að giftast, mosku ef þeir væru múslimar og sínagógu ef þeir væru gyðingar. Ég myndi taka þátt í heiðnum blótum og dansa í kringum tótemsúlu, syngja lof anda forfeðranna og krjúpa til lotningar Vishnu. Ef það skipti vini mína einhverju máli og mér finnst engin hræsni í því fólgin að taka þátt í siðum og athöfnum hinna innfæddu (kristnu, vinanna, Elvistrúar o.s.frv.). Með því er maður bara að sýna öðru fólki virðingu, ekki að viðurkenna sannindi trúar þeirra.
Þá er kennarafundurinn að fara að byrja og ég þarf að hætta þessu. May the Force be with you.