Þá eru íbúðarkaupamál komin á fullt og góður maður hjá Akureyrarbæ búinn að reikna út hvort við höfum efni á að kaupa nýja íbúð. Svo virðist ekki vera. A.m.k. miðað við þá íbúð sem hann reiknaði út fyrir okkur sem kostar nú bara 8 milljónir (Maður mundi samt bjóða í hana 7,6 – 7,8). Þá þyrftum við að greiða tæpan 30 þúsund kall af íbúðinni á mánuði m.t.t. vaxtabóta. Það rétt sleppur en þá er ekki gert ráð fyrir að við þurfum að taka bankalán til að borga einhvern 800 þúsund kall sem er umfram lánið frá íbúðalánasjóði. Við gætum sem sagt keypt okkur íbúð ef við ættum 800 þúsund kall, sem við auðvitað eigum ekki! Merkilegt að maður skuli geta greitt leigu hér upp á 65 þúsund á mánuði en 30 þúsund króna afborgun af íbúð er of mikið fyrir okkur samkvæmt þessum sjóði. Mannurinn sagði okkur samt að örvænta ekkert. Hjá bönkunum væri oft hægt að fá alls kyns reddingar og dreifingar sem geta minnkað greiðslubyrðina á mánuði. Þannig að við ætlum að tala við bankamanninn á morgun og athuga hvað hann segir. Getum við einhvern vegin fengið hjá honum 800 þúsund kallinn án þess að greiðslubyrðin okkar þyngist mjög mikið? Ef einhver þarna úti kann góð ráð þá endilega láta mig vita.
Svo er verið að röfla út af meðmælendafjölda forsetaframbjóðenda. Allir vilja láta hækka þetta og færa rök fyrir máli sínu, að mannfjöldi á Íslandi hafi aukist frá því að viðmiðin voru sett og að menn sem ekki geta safnað 10.000 undirskriftum eigi nú bara ekkert erindi í framboð og það sé bara peningaeyðsla að leifa svoleiðis mönnum að bjóða sig fram. Allt er þetta svo borið fram í skjóli mikillar virðingar fyrir Forsetaembættinu. Sjálfur ber ég ekki mikla virðingu fyrir Forsetaembættinu, burt séð frá því fólki sem hefur gegnt því og er eflaust ágætasta fólk. Kannski er það þess vega sem ég set stórt spurningamerki við þessi skilyrði um meðmælendalista með öllum framboðum. Ég man að í menntaskólanum þurfti maður 10 nöfn á meðmælendalista til að fá að bjóða sig fram til Forseta. Þar voru um 900 nemendur svo kannski er þetta hlutfallslega svipað. Er hins vegar hægt að banna mönnum að fara í framboð bara vegna þess að þeir þekkja ekki 10.000 manns sem eru tilbúnir að kvitta upp á stuðningsyfirlýsingu? Eða 2.500? Persónulega finnst mér það vera réttur hvers manns í lýðræðisríki að fá að bjóða sig fram, jafnvel þótt hann þekki engan sem finnst hann nógu flottur gæi (eða gella) til þess! Myndi þá ekki allt fyllast af einhverjum vitleysingum að bjóða sig fram? Jú, kannski. Og hvað með það? Það yrði þá líka kannski hætt fjárhagslegum stuðningi ríkisins við öll framboð hér á landi. Hvað á ríkið með að greiða stjórnmálaflokkum þessa lands fullt af monníngi til að þeir geti haldið áfram að bjóða fram? Mér finnst það spilling! Auðvitað eiga allir að mega bjóða sig fram til forseta sem það vilja! ín þess að þurfa að afla eins einasta nafns á undirskriftalista! Það breytir því ekki að ég kem til með að sitja heima og virða þessar kosningar að vettugi. Þ.e.a.s. sýna þeim virðingu í réttu hlutfalli við mikilvægi þeirra. Þá virðingu sem þær verðskulda.