Mikið var skemmtilegt að heyra Jón Steinar Gunnlaugsson hneykslast á pólitískri lögfræði í hádegisfréttunum í dag. Hann var að tala um álit Umboðsmanns Alþingis á stöðuveitingu Björns Bjarnasonar í Hæstarétt. Einhvern vegin finnst mér þessi ummæli koma úr hörðustu átt enda opnar þessi maður ekki á sér munninn nema til að réttlæta gerðir Davíðs og Sjálfstæðisflokksins. Minnti mig á að þegar ég segi krökkunum í skólanum að ef þau séu stillt og við náum að fara yfir efni kennslustundarinnar áður en tíminn er búinn þá megi þau fara fyrr út, þá eru það alltaf þeir sem eru yfirleitt með mestu lætin og truflunirnar sem fara að sussa á hina. Þetta kallar maður að einblína á flísina í auga náungans en koma ekki auga á timburverksmiðjuna í sínu eigin.
Annars er það að frétta að í dag var umsóknin okkar um viðbótarlán samþykkt þannig að við erum að fara að kaupa okkur íbúð við Hafnarstræti á Akureyri. Þetta er mjög fallegt og sjarmerandi gamalt timburhús. Byggt 1906. Það þarf reyndar að gera mjög mikið fyrir það en við höfum líka nógan tíma til þess og fengum það ódýrt. Núna skilst mér að þetta fari allt saman til íbúðalánasjóðs og svo skrifum við undir eftir svona viku til tíu daga. Þá verð ég að hafa hálfa milljón handbæra.
BBíB