Meira Eurovisionblogg. Síðasti kynningarþátturinn var í gær og þessi samnorræna og hallærislega framsetning er að mínu mati sérstaklega skemmtileg og virkilega til þess fallin að ná upp réttri Eurovision stemmingu fyrir framan tækið og það er náttúrulega bara brilljant að vinka svo bless. Ég komst að því að ég var yfirleitt sammála þeim finnska en oftast ósammála þessum íslenska. Hvaða fábjáni er þetta eiginlega? Kemur vondu nafni á land og þjóð 😉 Svo finnst mér að Íslendingar eigi að tala dönsku á samnorrænum vettvangi en ekki á syngjandi norsku eins og einhverjir Trondhæmskir hálvitar. sbr. þessa tilvitnun í Eirík „okkar“ Hauksson: „Tí¤jen oozer av selvtillit“ Þetta verður að lesast á norsku, þ.e. byrja djúpt og enda lengst uppi í rassgati. Jæja, nóg af svona kjaftæði. Hvað fannst mér um lögin? Lesið og komist að því:
1. Spánn – Para llenarme de ti Það þyrfti eiginlega að hlusta á þetta beint á eftir gríska framlaginu til að átta sig á því hvað það gríska er mikið rusl. Og svo að hlusta á ekta Ricky Martin latínó brjálæði til að heyra að þetta er litlu skárra þó það sé tíu sinnum betra en gríska lagið.
2. Austurríki – Du bist Austurríkismenn fá plús hjá mér fyrir að syngja á þýsku sem mér finnst alltaf frekar töff. Hins vegar eru þetta ákaflega hallærislegir drengir þó þeir eigi áreiðanlega vel heima í Bravó blöðunum.
3. Noregur – High Norsararnir hafa augsýnilega ákveðið að fara sömu leið og Íslendingar (og önnur hver þjóð líka) og senda sætan strák með ljúft lag. Týpískt norrænt Eurovisionpopp og minnir e.t.v. líka svolítið á íslenska sveitaballatónlist.
4. Frakkland – A chaque pas Enn einn ballöðustrákurinn. Ólíkt hinum þá er þessi mjög góður. Lagið hins vegar síður en svo eftirminnilegt.
5. Þýskaland – Can’t wait until tonight Nei, hvað höfum við hér? Ballöðustrák? Ja, nú er ég svo aldeilis hlessa! Þetta lag er hins vegar skemmtilega öðruvísi og gæti gengið vel. Söngvarinn mætti samt raka á sér augnabrúnina, a.m.k. svona á milli augnanna.
6. Belgía – 1 Life Þetta er víst voðalega vinsælt á netinu, en því miður. Teknó = OJJJ!!! Einhæfur og ömurlegur texti og söngkonan af einhverjum ástæðum frekar fráhrindandi. Kannski vegna þess að hún gat varla sungið fyrir mæði.
7. Rússland – Believe me WHAT?!? Þetta var svona eins og menntaskólaskemmtiatriði á árshátíð Framtíðarinnar. Fyrir utan að sviðið var mun flottara og eldstrókarnir æðislegir. Ætli þeir megi setja svona upp á keppninni? Væri gaman að Rússar ynnu til að sjá hvernig Eurovision yrði í Rússlandi en með þetta lag er það ekki möguleiki. Þeir eiga bara að senda Tatu aftur þangað til þær vinna: Ne verj, ne boisja!
8. Ísland – Heaven Norsararnir hafa augsýnilega ákveðið að fara sömu leið og Íslendingar (og önnur hver þjóð líka) og senda sætan strák með ljúft lag. Týpískt norrænt Eurovisionpopp og minnir e.t.v. líka svolítið á íslenska sveitaballatónlist. (Æii, gleymdi ég að breyta Noregur í Ísland í þessu copy/paste. Eini möguleikinn fyrir Jónsa að fá stig er að syngja þetta ber að ofan!!! Voðalega er þetta líka þreytt með söngvarann sem syngur ósýnilegur til stúlkunnar í vídeóum)
9. írland – If the World stops turning Það eina góða við þetta lag er nafn söngvarans, Doran. Hann ætti náttúrulega að kalla sig Doran Doran. Hann fengi nokkur stig út á það. Annars var þetta voða næs og hliðar saman hliðar eitthvað.
10. Pólland – Love Song Þetta var skemmtilegt. Fínt lag og frábær söngur. Mikið er ég samt hræddur um að þetta deyi á sviði.
11. Bretland – Hold on to our love Bretarnir koma sterkir inn með svona Brian Adams wannabe. Hér er á ferðinni enn ein strákaballaðan og allar þjóðir sem sendu svoleiðis inn eiga líklega eftir að líða fyrir það. Þetta er samt sú besta af þeim.
12. Tyrkland – For real Frábært! Snilld! Ég vona að Tyrkir vinni aftur! Sem gæti náttúrulega gerst því þeim hefur gengið ljómandi vel eftir að símakosningin var tekin upp. Það búa svo margir Tyrkir í öðrum Evrópulöndum. Gaman að heyra Tyrki syngja á svona working-class ensku og lagið hefði geta verið á hvaða Madness plötu sem er. Það er bara Ankara á næsta ári.
13. Rúmenía – I admit Þegar menn hafa svona flytjanda þýðir ekki að klæða hana í peysu og svartar buxur og búast við því að eitthvað gerist. Takið gríska flytjandann frá því í fyrra ykkur til fyrirmyndar. Við viljum skoru! Við viljum naflabol og mjaðmabuxur! Kannski stutt pils eða kjól með klauf upp á mjaðmir! Allt nema svona vitleysu. Það verður líka að beina athyglinni að keppandanum þegar lagið er svona.
14. Svíþjóð – It hurts Lena er hot! Hún kann líka að klæða sig svo það sjáist. Svona eiga fallegar komur að klæða sig. Lagið var hins vegar frekar týpískt Europopp en allt í lagi sem slíkt.
Þannig að það er allt útlit fyrir gott Eurovision í ár. Á maður að velja einhvern sigurvegara? Sjálfur myndi ég velja tyrkneska lagið eða það danska en ég er hræddur um að smekkur Evrópubúa sé annar en minn. í ljósi sigurvegara síðustu ára væri freistandi að velja þjóðir eins og Júgóslavíu eða Eistland því þjóðlegt virðist vera inn þessi árin. Lúmsk lög gætu svo verið frá Mónakó, Andorra, Kýpur og Svíþjóð. Svo þið sjáið að það er hægara sagt en gert að ætla sér að velja sigurvegara. Læt samt vaða og spái hér með Tyrklandi sigrinum en ég myndi samt ekki veðja neinu upp á það.
Að lokum: Af hverju eru þessar þjóðir ekki með í Eurovision? Tékkland, Slóvakía, Lichtenstein, Lúxemborg, San Maríno, Búlgaría, Ungverjaland, Moldavía, Georgía, Armenía og Azerbadjan?
Og af hverju er þessi þjóð með? ísrael?