Var að lesa það áðan á netinu að þeir eina sem þeir félagar Knold og Tott vilja láta hafa eftir sér um væntanleg lög um þjóðaratkvæðagreiðslu er að ýmislegt í þeim eigi eftir að koma á óvart. það skyldi þá aldrei vera að þeir ætluðu að vera sanngjarnir, leyfa þjóðinni að ráða og sleppa öllum takmörkunum. Ég held að það sé það eina sem kæmi mér á óvart.
Annars er ég orðinn frekar leiður á því hvernig framkvæmdavaldið á Íslandi þykist ráða yfir öllu og Alþingi er bara orðin afgreiðslustofnun. Strax og ljóst var að þyrfti þjóðaratkvæðagreiðslu fór framkvæmdavaldið að undirbúa lög um hana. Sjálfum finnst mér að löggjafarvaldið eigi að sjá um að semja og setja lög ekki ráðherrar.
Nú er mikið talað um að endurskoða stjórnarskránna. Það líst mér vel á. Ég er þó hræddur um að þær breytingar sem ég vildi sjá á henni nytu ekki mikils stuðnings:
1. Ráðherrar megi ekki vera þingmenn.
2. Ráðherrar, ráðuneyti, stofnanir o.s.frv. megi ekki sjá um að semja lög.
3. Lagasetning sé alfarið í höndum Alþingis sem hafi á sínum snærum nefndir og ráðgjafa til að tryggja vandaða lagasetningu.
4. Löggjafar- og framkvæmdavald sé kosið í aðskildum kosningum.
Þetta held ég að myndi brjóta upp ráðherraræðið sem er ríkjandi á Íslandi. Hér er nefnilega hvorki lýðræði né þingræði heldur fyrrnefnd ráðherraræði sem er hættulega nálægt einræði, n.k. fáræði.