Ég fór með strákana í göngutúr áðan. Þegar við vorum að koma úr endurvinnslunni sáum við nefnilega þessa flottu skútu í höfninni. Risaskúta með tvö stór möstur og heitir tara. Já, það er skrifað með litlum á skrokknum. Strákarnir sögðu mér að þetta skip væri notað til hvalarannsókna og þeir hefðu nú skoðað það í sumar á siglinganámskeiðinu. Það voru fleiri skútur í höfninni þó engin þeirra væri jafn stór og tara.
Þessu næst röltum við okkur í Pennan-Bókval og þar sá ég að Monstrous Regiment eftir Terry Pratchett er komin í kilju og ég bara verð að eignast hana. Best ég sendi Gullu á morgun til að kaupa hana handa mér í jólagjöf. Hún átti að kaupa The Wee Free Men handa mér í afmælisgjöf í sumar en dró það svo á langinn að hún var uppseld þegar Gulla ætlaði að kaupa hana. í staðinn þurfti ég að kaupa hana sjálfur þegar hún kom aftur í júlí. Við megum ekki lenda í því aftur!
Dagur var á fullu að skoða GSM-símana. Það er ekki hægt að rífa hann frá þeim þessa dagana. Hann er orðinn 12 ára og allir í bekknum eiga svona nema hann (og einhver stelpa). Hans heitasta ósk er að fá svona síma í jólagjöf. Ég sé svo sem ekki hvað hann hefur að gera við þetta en ætli maður láti ekki undan þrýstingnum á endanum.
Meira er ekki að frétta héðan frá Akureyri að þessu sinni. BBíB!