Þriðji verkfallsdagur og allt er með kyrrum kjörum. Enda ekki annars að vænta þar sem samningafundurinn er ekki fyrr en á morgun. Varð var við það í verkfallsmiðstöðinni að fólk er reitt út í Guðmund Andra Thorsson og Þráin Bertelsson fyrir skrif sem bæði eru kjánaleg og óuppbyggileg í umræðunni. Burt séð frá því hversu siðlaust og sóðalegt það er að líkja fólki við hryðjuverka- og gíslatökumenn þá vil ég bara segja sem minnst um þessar greinar. Þær dæma sig alveg sjálfar.
Hins vegar finnst mér áberandi hvað starfsfélagar mínir hafa miklar áhyggjur af almenningsálitinu. Hvenær fengu menn síðast launahækkun fyrir að vera næs? Það er frekað gegnið yfir næs fólk á skítugum skónum en að það sé verðlaunað fyrir það. Mér er eiginlega bara nákvæmlega sama hvað Guðmundum Öndrum og Þránum Bertelssonum þessa heims finnst um mig. Ég er að berjast fyrir mannsæmandi kjörum ekki því að bæta ímynd kennarastéttarinnar. Það er hægt að vinna í því utan verkfalla.
Ég veit ekki heldur til þess að nokkur önnur stétt hafi svona miklar áhyggjur af ímyndinni í kjarabaráttu sinni. Eru flugumferðarstjórar, mjólkurfræðingar eða sjómenn að leggja sig í framkróka við að þóknast almenningsálitinu þegar þeir boða verkfall? Ekki hef ég orðið var við það! Við kennarar eigum að hætta að hafa áhyggjur af því að það mælist illa fyrir að stöðva verkfallsbrot, að margir hafi fallið fyrir þeim áróðri að kennarar séu bara frekjur o.s.frv. Það kemur okkur bara ekkert við.