Það hefur mikið gerst síðan ég bloggaði síðast.
Kennarar felldu miðlunartillögu sáttasemjara með 93% atkvæða. Margir fögnuðu og það leit ekki mjög vel út í sjónvarpinu. Samt má segja að þessi samstaða sé aðdáunarverð. Hún gefur til kynna að kennarar séu orðnir langþreyttir eftir skelfilega samninga 1995, 1997 og 2001. Núna ætlum við ekki að gefast upp fyrr en við fáum almennilegan og réttlátan samning. Ég tel að önnur stéttarfélög gætu margt lært af kennurum.
Svo er búið að fresta samningaviðræðum um tvær vikur. Tilboð FG má finna hér. Ég tel að það sem þarna er boðið sé alger lágmarkskrafa af hálfu kennara. Hvað ætli Halldór ætli að segja við menn á morgun?
Svo er Þórólfur búinn að segja af sér sem borgarstjóri og Steinunn Valdís tekin við. Ég hef trú á henni og held að hún komi til með að verða góður borgarstjóri. Þórólfur sagði í upphafi að hann hefði ekki haft vitneskju um þetta samráð og svo hefur komið í ljós að hann hélt fundargerðir og boðaði fundi. Hann vissi því allt um málið þó hann hafi ekki tekið ákvarðanirnar. Það að kastljósið hafi beinst að honum hefur þó dregið úr því að þeir sem raunverulega bera ábyrgðina, þ.e. forstjórarnir, hafi þurft að svara fyrir sig. Það er þó kannski eðlilegt þar sem þeir hafa náttúrulega stöðu grunaðra í þessu máli og mega því lítið tjá sig.
Nú reynir á íslenska réttarkerfið. Hvort þessir menn fá eðlilega refsingu miðað við umfang glæpsins. Fékk írni Johnsen ekki eitt og hálft ár fyrir að draga sér nokkrar milljónir? Hvað ætli menn fái þá fyrir að ræna 40 milljörðum af þjóðinni? Lífstíðarfangelsi? Einhvern veginn efast ég um það. Réttast væri svo að skylda olíufélögin til að selja eldsneytið 5 kr. undir kostnaðarverði þangað til þessi upphæð er að fullu endurgreidd.
Guðmundur írni og Mörður koma líka illa út eftir þessa stuðningsyfirlýsingu sína sem að mínu viti var verulega illa hugsuð. Mér þykir líklegt að Mörður hefði verið fremstur í flokki að kalla á uppsögn ef um hægriborgarstjóra hefði verið að ræða. Menn verða að vera samkvæmir sjálfum sér. Sjálfur held ég að Þórólfur hafi verið fínn borgarstjóri og hann á eftir að koma sterkur inn aftur eftir þetta, rétt eins og Guðmundur írni kom sterkur inn aftur eftir að hann þurfti að segja af sér sem Heilbrigðisráðherra.
Á morgun er svo árs-bloggafmæli mitt. Það var 11. nóvember 2003 sem ég byrjaði á þessu og síðan hef ég víst sett inn 209 pósta. í tilefni af því hefst sérstök upprifjunarvika á morgun!