Afhelgun er merkilegt fyrirbæri. Þegar eitthvað sem áður var forboðið eða utan gagnrýninnar umræðu verður allt í einu gilt viðfangsefni vangaveltna, umræðu og jafnvel árása.
Þannig hefur afhelgun trúarbragða birst í því að nú má tala um og gagnrýna trúarbrögð á allan máta án þess að eiga það á hættu að vera brenndur á báli, útskúfaður eða fordæmdur. Þessi afhelgun hefur leitt af sér umburðarlyndara og siðlegra samfélag en jafnframt opnað dyrnar fyrir gríni um Jesús og fordæmingu á trúarbrögðum sem hefði verið óhugsandi fyrr á tímum.
Það er meira en trúarbrögð sem hafa verið afhelguð. Þannig hefur umræða um sifjaspell, kynferðislegt ofbeldi, heimilisofbeldi, kynþáttafordóma o.s.frv. komið upp á yfirborðið og orðið þess valdandi að hægt var að fara að taka á þessum málum sem kraumuðu áður undir yfirborðinu en enginn mátti tala um.
Konur hafa líka verið afhelgaðar á vissan máta. Fyrr á tímum mátti varla hugsa um konur og enn síður tala um þær. Fætur og enn frekar hné kvenna þóttu svo forboðin að það varð að hylja þau og öll opinber umræða um konur mótaðist af yfirborðskenndri umhyggju, stærilæti og viktoríanskri siðsemi. Þrátt fyrir það voru ort blautleg kvæði í laumi og teknar dónalegar myndir sem gengu kaupum og sölum undir borðið á markaðstorgum holdlegra fýsna.
Það ber að minnast á að á þeim tíma voru réttindi kvenna engan vegin sambærileg við það sem gerist í dag. Því má segja að afhelguninni hafi fylgt aukin réttindi, bætt kjör og opnari umræða. Umræða sem getur líka gengið út í hinar öfgarnar, þ.e.a.s. algera kvenfyrirlitningu. Kvenfyrirlitningu sem aldrei hefði getað birst opinberlega á siðsamari og íhaldssamari tímum meiri kvennakúgunar.
írshátíðartexti MR ber fyrst og fremst því vitni að menntskælingar eru klámfengnir, með óþroskaðan húmor og lágt siðferðismat á því hvað telst birtingarhæft.
Að vissu leyti ber hann samt einnig vott um aukin réttindi kvenna, bætta stöðu þeirra, opnari umræðu og aukið umburðarlyndi í samfélaginu.