Það var útivistardagur í vinnunni í dag og ég fór ásamt nokkrum öðrum kennurum með hóp af krökkum í golf á golfvöllinn á Þverá. Skemmst frá því að segja að það var geggjað fjör og æðislega gaman. Samt var ég nú ekkert of góður í þessu. Bestu holuna mína fór ég á 7 höggum en þá lökustu á 13. Okkur sem vorum þarna fannst bara verst hvað rútan kom snemma að ná í okkur því það voru ekki nema fyrstu 2 – 3 hóparnir sem náðu að klára hringinn. Þrátt fyrir þetta þá er ég ekki kominn með golfbakteríuna og ætla ekki að rjúka til að kaupa mér golfsett og félagsskírteini í einhverjum golfklúbbnum. Hins vegar gæti hugsast að maður freistaðist til að kaupa eina kylfu og pútter því það kostar ekki nema 500 kall að fara og spila á vellinum á Þverá og maður þarf ekki að vera í neinum klúbbi.
í gær barst mér kjörseðill í formannskjörinu í Samfylkingunni. Þar krossaði ég við annað nafnið eftir miklar vangaveltur og gekk svo frá öllu eins og útskýrt var að ætti að gera og kom þessu í póstkassa. Ég hafði hins vegar ekki fengið neinar auglýsingar eða símhringingar þó annar frambjóðandinn hafi lýst því yfir að hann ætlaði að vinna þetta svona „maður á mann“. Þetta formannskjör hafði því ákaflega lítið abbast upp á mig. Þess vegna varð ég mjög undrandi þegar ég kom heim úr vinnunni í dag og þar lá A4 umslag frá Samfylkingunni. Ég opnaði það að sjálfssögðu strrax frammi í forstofu enda forvitinn um hvað verið væri að senda mér. í umslaginu reyndust vera tveir litlir bæklingar, annar frá Ingibjörgu og hinn frá Össuri. Ef þetta er það sem koma skal í kosningabaráttu til Alþingis, þ.e. að auglýsa þegar fólk er búið að kjósa, þá er ekki góðs að vænta.
í bæjarmálunum hér á Akureyri er lítið að gerast. Helst að okkur kennurum finnist fara lítið fyrir sérsamningnum sem Kristján Þór ætlaði að gera við okkur og borga okkur öllum ríflega 300 þúsund fyrir. Annars einkennast skólamál á Akureyri þessa dagana af hagræðingu „verið að segja öllum nema kennurum upp til að ráða þá aftur á lakari kjörum“, sparnaði „skólaferðalög stytt, stórir hópar sendir í strætó í staðinn fyrir að panta rútu“ og því að engir peningar fást hjá skólanefnd í nein verkefni. Þar á bæ er öllum umsóknum hafnað vegna peningaskorts eða án rökstuðnings (sjá hér í góðri úttekt hjá Gísla Baldvinssyni). Skólabærinn Akureyri! Ha, ha, ha, ha, ha! Um þessi mál hefur ekkert heyrst í Samfylkingunni. Svo ætlar Kristján að reisa álver við fjörðinn þótt bæjarbúar séu að stórum hluta andvígir því. Ekkert hefur heyrst í Samfylkingunni um það. í raun er ótrúlegt miðað við hvað Kristján er oft að bulla í fjölmiðla að enginn úr minnihlutanum skuli taka sig til og leiðrétta hann á sama vettvangi. Það eina sem hefur heyrst opinberlega frá Samfylkingunni á Akureyri er að það sé bráðnauðsynlegt að halda flugvellinum í Vatnsmýrinni í Reykjavík! Ef það er allt og sumt sem Samfylkingin leggur til í bæjarmálunum á Akureyri þá held ég að ég verði að finna einhverja aðra til að kjósa í sveitarstjórnarkosningunum þrátt fyrir að vera meðlimur í flokknum.