Fyrr í dag hringdi í mig blaðamaður frá Fréttablaðinu sem sagðist vera að leita að kennara til að spyrja um viðhorf okkar til mótmælafundarins á Ráðhústorginu þar sem ofbeldi var sýnt rauða spjaldið.
Ég held að ofbeldi sé ekki jafn stórt vandamál í samfélaginu og það virðist í fjölmiðlum. Þannig sé ég ekki ástæðu til svona mótmælafundar þótt einhverjir dópistar hér á Akureyri séu að berja hver á öðrum. Þetta er svosem voða sætt og táknrænt en algerlega máttlaust og hefur örugglega ekki nein áhrif á tíðni ofbeldis. Vandamálið er frekar það uppeldi sem þessir krakkar hafa fengið (eða misst af öllu heldur). Það er staðfest í rannsóknum að stærsti skýringarþátturinn í gengi fólks í skóla (og í áframhaldinu í lífinu) er gæði þess uppeldis sem það fékk. Ofbeldi er heldur ekki það stórt vandamál meðal ungs fólks. Frekar það að margir virðast eiga erfitt með að ráða við sjálfa sig. Þá á ég við að bestu krakkar með háleita drauma og gáfur til að láta þá rætast hafa ekki lært þann sjálfsaga sem þarf til að ná markmiðum sínum. Ofbeldishneigð ungmenni eru ekkert algengari núna en fyrir tuttugu eða þrjátíu árum.
Þetta sagði ég hins vegar ekki blaðamanninum þar sem ég er nokkuð viss um að þetta endurspeglar ekki viðhorf hins almenna kennara hér á Akureyri. Þess í stað benti ég honum á annan kennara til að ræða við. Vona að sá hafi getað veitt honum góð svör.