Síðasti Eurovisionþátturinn búinn og kominn tími til að fara yfir lögin.
Bretland: Ekki veit ég nú alveg hvað Bretarnir eru að hugsa með þessu. Tyrkneskur hljómur og erótík. Það voru reyndar mun betri hljóðgæði á þessu á netinu en í þessu vídeói. ígætis popp og grípandi. Ég gef 3.
Malta: Mikið rosalega syngur hún Chiara vel (Hét ekki ljónynjan í Lion King II þetta líka?). Þetta lag er líka kraftmikið og grípandi og myndbandið var alveg frábært. Þetta er svona hundrað sinnum betra en íslenksa framlagið með sama nafni: Angel. Ég ætlaði að gefa þessu 5 þegar Norðmaðurinn benti á að þetta væri bara önnur útgáfa af Power of Love og bæði ég og Eiki Hauks erum sammála því. Ég gef 0 stig.
Tyrkland: Tyrkirnir hafa verið voða spes undanfarið og uppskorið vel. Nú sækja þeir á gömul mið og þetta lag gæti verið framlag Tyrkja frá hvaða ári sem er á 10. áratugnum. Söngkonan hefur samt hvorki þokka né glæsileika Sabnem Pacer og lagið jafnast á engan hátt við Dinle. Ég gef 2.
Albanía: Þetta er alveg frábært lag. Laglínan og lagasmíðin svo sem ekkert spes en þetta er grípandi og kröftugt, sungið af innlifun og sjóið í kring frábært. Dansararnir með fiðlurnar þóttu mér alveg brilljant og söngkonan minnti mig dálítið á Andreu Gylfa. Ég gef 4.
Kýpur: Hér er á ferð einhver Enrique Iglesias eftirherma og svo sem OK sem slík. Ég gef 2.
Spánn: Það sáu allir Las Ketchup eftirhermuna í þessu. Lagið er svo sem allt í lagi en jafnast náttúrulega ekki á við fyrirmyndina. Hljómar svolítið eins þetta gæti verið lag úr spánskri gamanmynd. Ég gef 3.
Júgóslavía: Mér fannst þessi rauði hnykill sem stelpan var að vefja ofan af mjög dulúðugur og mér sýndist hún líka ganga á vatninu! Hún komst raunar aldrei neitt og mér sýndist nóg eftir á hnyklinum þegar lagið var búið. Þetta er svona týpískt balkanskt dulúðar, tilgangsleysis, dramadæmi eitthvað. Ég gef 2.
Svíþjóð: Þetta er líklega slakast framlag Svía í langan tíma og lang lélegasta norræna lagið í ár. Neonljósið var samt smart. Það var mjög pínlegt að horfa upp á þessa Norðurlandasamkundu þarna rembast við að gefa þessu stig. Ég gef 1.
úkraína: Mér sýndist ég sjá Che! Ömurlegt. Ég ætla samt ekki að núlla þetta því það eru svo miklar tilfinningar í gangi og þetta er svo einlægt og ferskt. Ég gef 1.
Þýskaland: Ég er mjög hrifinn af Þýskalandi í ár. Þetta lag hljómar samt betur á netinu en það gerði í þessu myndbandi. Þetta er öðruvísi og flott. Söngkonan reyndist líka vera mjög hot og ekki er það verra. Ég gef 5.
Grikkland: Grikkirnir eru líka mjög góðir á ár. Lagið er ekkert spes fram að viðlaginu en þá lifnar yfir því. Söngkonan heldur manni samt alveg við efnið allan tímann. Þetta var voða sexý (eins og margt annað). Er klámvæðingin að hefja innreið sína í Eurovision? Ég meina skorur og klaufir og aðsniðnir kjólar eru eitt en dansatriði sem eru bara útfærsla á samfarahreifingum gætu e.t.v. móðgað einhvern. Að vísu ekki mig en kannski einhvern. Ég gef 4.
Rússland: Þetta lag minnti mig á margt. Söngkonan var að því er mér fannst að herma svolítið eftir Avril Lavigne og tónlistin var bæði í anda hennar og Tatu. „Nobody hurt no one“ hljómaði á bakvið nánast allan tímann og gaf þessu svolítið ritúalskan svip. Mjög sterkt og flott. Sviðið með öllu þessu krómi og stáli var líka voðalega spes! Ég gef 4.
Bosnía-Herzegovína: Þarna kom sænska framlagið. Bara frá rangri þjóð. Þær gerðu sér líka grein fyrir því og gerðu óspart grín að sænskri fyrirmynd lagsins í myndbandinu. Ég sá mörgum Abba stellingum bregða fyrir, Abba átfittum og meira að segja Abba albúmi. Skemmtilegt nafn líka á bandinu; Feminem og skrifað með sama letri og Eminem notar. Þrælskemmtilegt en kannski ekkert voða gott. Ég gef 4.
Frakkland: Síðasta lagið í keppninni og rosalega franskt. Söngkonan og dansararnir brúneygar og dökkhærðar, rómanskar fegurðardísir og franskan er rosalega sexý tungumál. Það var voðalega lítið í þetta lag spunnið samt einhvern veginn og hvað var söngkonan að vola þarna í lokin? Ég er samt hrifinn af ýmsu í þessu. Ég gef 3.
Samkvæmt þessu virðist ég hallast að því að Noregur eða Þýskaland (eða jafnvel Malta) vinni, en þetta er nú bara minn smekkur og ég þykist þekkja Evrópu nógu vel til að spá því að niðurstaðan verði ekki á þá leið. Ég ætla ekki að spá neinu um lokakeppnina fyrr en eftir undanúrslitin. Um þau er ég búinn að spá. Núna verðum við bara að bíða spennt til þórsdags.