Ég er búinn að vera að lesa um formúlukeppnina á sunnudaginn út um allt á netinu. Þar skiptast menn í tvo hópa, þann sem sakar Ferrari og FIA fyrir ósveigjanleika og hinn sem sakar Michelin (og jafnvel Michelin-liðin sem mér finnst ómaklegt) fyrir að hafa ekki getað útbúið rétt dekk fyrir brautina og ekki einu sinni áreiðanleg varadekk. Báðir hópar sýnast mér hafa nokkuð til síns máls en þrátt fyrir það er ég enn á þeirri skoðun að allir hafi tekið rétta ákvörðun. Það getur vel verið að reglum hafi verið breytt fyrir Bridgestone einhverntíman þegar rigndi of mikið fyrir þeirra dekk og keppni verið sett af stað á eftir öryggisbíl þangað til brautin þornaði nóg fyrir Bridgestonedekkin. Það var rangt þá og réttlætir ekki að gera ívilnanir núna fyrir Michelin sem væri alveg jafn rangt. Þess vegna tel ég að það sé ekki hægt að refsa neinum fyrir það sem gerðist. Michelin-liðin hafa örugglega fengið næga refsingu í því að missa af stigunum. Best væri kannski í stöðunni að refsa Michelin-framleiðandanum með því að láta hann endurgreiða aðgöngumiðana.
Ég hef verið að hugsa aðeins um það sem Halldór ísgrímsson sagði um endurskipulagningu stjórnsýslunnar og verð að segja að aldrei þessu vant þá er ég sammála honum. Mér er samt til efs að stjórnmálaflokkarnir á Íslandi geti samþykkt verulega fækkun ráðuneyta. Ekki nema e.t.v. kæmi til e-s konar aðstoðarráðherrar í hvert ráðuneyti. Þessa endurskipulagningu held ég að væri skynsamlegt að gera í tenglsum við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þar tel ég mikilvægast að skerpa á sjálfstæði hvers valdssviðs, þ.e. framkvæmda-, löggjafar- og dómsvaldi þannig að við losnuðum við þetta ráðherraræði sem er ríkjandi hér á landi þar sem framkvæmdavaldið ræður þessu öllu. Það heyrir t.d. til undantekninga ef lög frá Alþingi koma ekki beint frá ráðherrunum. Þá gætum við líka kannski raunverulega farið að kjósa okkur ríkisstjórnir.
Jafnréttislög „barn síns tíma“ eru talsvert til umfjöllunar núna og Félagsmálaráðherra ætlar að láta athuga hvers vegna þau hafa ekki borið árangur. Það þarf lítið að rannsaka það. Þau hafa ekki borið árangur vegna þess að það er ekki farið eftir þeim. í raun á alltaf að taka tillit til jafnréttissjónarmiða þegar lög eru sett, ráðist í framkvæmdir eða ráðið í stöður, orður veittar o.s.frv. Vandinn er sá að það hugsar enginn út í þetta fyrr en eftirá þegar þeim er bent á hve kynjunum er mismunað hvað þessi mál varðar. Ef Alþingi samþykkti aldrei lög nema íhuga fyrst hvaða áhrif þau hafa á stöðu kynjanna, engar stöður væru veittar nema fyrst væri búið að athuga hvernig hægt væri að jafna stöðu kynjanna og í engar framkvæmdir ráðist nema búið væri að athuga hvort þær hefðu einhver áhrif á jafnréttið þá væri þetta vandamál ekki til staðar. Það er hins vegar ekkert skrýtið að strákaklúbburinn sem sá ekkert athugavert við að henda Siv úr Stjórnarráðinu skuli ekki fatta þetta.