Ég hef áhyggjur af því að Ísland sé að breytast í fasistaríki. Þessar áhyggjur mínar byrjuðu þegar Falun Gong (sem ég held að séu ákaflega varhugaverð samtök) stefndu fólki hingað til lands til að mótmæla komu Kínaforseta (sem ég held að sé varhugaverðari en Falun Gong). Þessum mótmælendum var nefnilega komið fyrir í einhverjum tilvikum í fangabúðum á Reykjanesi. Aðrir mótmælendur voru hafðir þar sem ólíklegt var að höfðingjarnir sæu til þeirra. Þeir fáu sem komust í sjónlínu voru fjarlægðir og það stundum með óþarflega harkalegum aðgerðum.
Af þessu hafði ég hins vegar ekki miklar áhyggjur þar sem ég taldi mig skynja að þessar aðgerðir nytu lítils stuðnings í samfélaginu og væru bara ofsafengin viðbrögð nokkurra öfgahægrimanna með fasíska tendensa.
Þegar ég sá í Fréttablaðinu á fimmtudaginn (þeir kalla þórsdaga það) að u.þ.b. 60% þeirra sem tóku þátt í netkönnun blaðsins voru því fylgjandi að mótmælendum Kárahnjúkavirkjunnar yrði vísað úr landi var mér eiginlega öllum lokið. Ég hélt nefnilega að það væru bara Ingvi Hrafn og aðrir hægrikjánar með svipaðan lýðræðisþroska sem fyndist í alvöru flott að brjóta mannréttindi á þeim sem þeir eru ósammála. Nú vil ég taka fram að mér finnst þetta mál að engu leyti snúast um Kárahnjúkavirkjun og hvort maður sé fylgjandi henni eða ekki. Málið snýst um það hvort við séum fylgjandi rétti fólks til að mótmæla og fá réttláta meðferð jafnvel þótt mótmælin séu í andstöðu við almannavilja, jafnvel þótt mótmælendur valdi einhverjum skaða að á því máli sé tekið sérstaklega en ekki notað til að magna upp andlýðræðislegan ofsa og viðbragða (eins og að vísa fólki úr landi) sem hvorki eiga sér lagalega né siðferðislega réttlætingu. Enn hef ég hvergi séð að nokkur mótmælenda (fyrir utan þann sem sletti skyrinu) hafi verið ákærður fyrir skemmdarverk. Ef lögreglan er farin að taka upp á því að elta fólk sem yfirvöld telja óæskileg, beita það harðræði og útlendingastofnun jafnvel farin að vísa fólki úr landi sem eru íbúar EES og hafa öll sömu réttindi hérlendis og Íslendingar, þá stefnum við hraðbyri í fasistaríki, svipað því og er nú þegar farið að myndast í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Þegar ég skoðaði þetta mál betur varð mér ljóst að sú þróun er reyndar löngu hafin hér á landi enda vandséð að finna útlendingafjandsamlegra land í Vestur-Evrópu en Ísland. útlendingastofnun hefur nánast undantekningalaust (held það finnist eitt dæmi um hið gagnstæða síðustu 10 ár) vísað hælisleitendum burt og öll vinnubrögð þeirrar stofnunar einkennast einfaldlega af útlendingahatri sem einkum beinist að óhvítum, ógermönskum og ókristnum. Þetta hljómar alltaf óhuggulegra og óhugnanlegra eftir því sem maður hugsar meir um það. Ég rétt vona að 60% þeirra sem sjá ástæðu til að taka þátt í þessari vefkönnun hjá Fréttablaðinu endurspegli ekki 60% þjóðarinnar því þá erum við í slæmum málum og bara tímaspurspál hvenær við eignumst okkar eigin Kristalsnótt.