Einu sinni fyrir langa löngu var lítið land þar sem fólk undi við leik og störf og flestir í þessu landi höfðu það bara nokkuð gott. Litla landið ómaði líka af söng því á hverjum degi fóru söngvarar út á göturnar og sungu söngva sína fyrir fólkið. Söngvararnir sungu gömul lög og ný, lög sem þeir höfðu sjálfir samið og lög sem þeir höfðu lært af öðrum. Flestir sömdu þeir líka lög sjálfir og ómældur tími fór í að skrifa texta, fylgjast með því sem var að gerast í sönglistinni og að sjálfssögðu í æfingar.
Það var ekki auðveld vinna að vera söngvari. Það reyndi á sköpunargáfuna og var mikið álag á röddina. Enda voru margir söngvarar rámir að kvöldi og margir misstu úr dag og dag í söngnum vegna hálseymsla. Þó höfðu söngvararnir ákveðið og fengið samþykkt af ríkisstjórninni í litla landinu að nóg væri að syngja í 28 tíma á viku. Fyrir þessu höfðu þeir barist árum saman og loksins fengið málum sínum framgengt. Þeim fannst það reyndar frekar mikið því þeir vissu að söngvarar í öðrum löndum sungu margir hverjir í 20 – 24 tíma á viku. Ríkisstjórnin í litla landinu borgaði líka söngvurunum 10 skildinga á dag fyrir að syngja og það þótti mörgum nóg fyrir einhverja gaulara sem stóðu úti á götu og sungu í rétt rúma fimm tíma á dag. Tíu skildingar dugðu líka vel fyrir brauði og fyrir nokkrum árum höfðu söngvararnir bara fengið sex skildinga. Söngvararnir mundu það reyndar líka að fyrir nokkrum árum hafði brauðið bara kostað einn skilding.
Söngvararnir voru líka búnir að reyna árum saman að fá fleiri skildinga fyrir sönginn og allir í litla landinu virtust vera sammála um það að án söngs gæti fólkið ekki verið. Alltaf fengu þeir samt sama svarið. Söngmálaráðherrann sagði: „Það eru bara ekki til meiri skildingar til að borga ykkur.“ En sjálfur fékk söngmálaráðherrann 100 skildinga á dag. Svona hafði þetta gengið mjög lengi þangað til söngvararnir ákváðu að ef þeir fengju ekki fleiri skildinga ætluðu þeir að hætta að syngja. „Já, hættið þið bara,“ sagði söngmálaráðherrann. „Við skulum bara sjá hvað gerist.“ Svo söngvararnir hættu að syngja.
Til að byrja með virtist allt ganga sinn vanagang í litla landinu en eftir smá tíma fór að bera á því að fólkið var ekki lengur jafn glatt og áður. Afköst þess í vinnunni minnkuðu og það fór að bera á vandamálum sem spretta upp þegar fólk verður óánægt. Að sjálfssögðu skildu söngvararnir það. Þeir vorkenndu fólkinu sem varð að sinna sínum daglegu störfum án þess að hlusta á sönginn en þeir voru staðfastir og ákveðnir í því að gefast ekki upp.
Eftir sjö vikur var ástandið í litla landinu orðið mjög slæmt. Fólkið krafðist þess að ríkisstjórnin gerði allt sem hún gæti til að fá söngvarana aftur til að syngja. En söngmálaráðherrann var líka ákveðinn og þess vegna sendi hann hermenn ríkisins að ná í söngvarana til að draga þá út á göturnar og skipaði þeim að byrja að syngja aftur. Reyndar földu sumir söngvararnir sig og létu ekki sjá sig fyrr en daginn eftir en loks ómaði litla landið aftur af söng. Söngmálaráðherrann miskunnaði sig líka yfir þá með því að lofa þeim heilum aukaskildingi á dag og þar að auki samþykkti hann að það væri nóg að hver söngvara syngi í 26 tíma á viku. Þeir fengju þá meiri tíma til æfinga og til að semja ný lög. Söngvararnir voru reyndar ekki ánægðir með þessi málalok enda mundu þeir þegar brauðið hafði kostað einn skilding og vissu sem var að þessi aukaskildingur frá söngmálaráðherranum dygði skammt.
Það voru líka fleiri óánægðir en söngvararnir. Bæjarstjóri í einum bæjanna í litla landinu var líka óánægður. Honum fannst söngvararnir latir og sagði: „Ég get sko alveg borgað söngvurunum í mínum bæ 20 skildinga á dag fyrir að syngja ef þeir fara að vinna fulla vinnu eins og annað fólk.“ Bæjarstjórinn fékk líka 100 skildinga á dag.
Sumir söngvaranna vildu fá að vita hvað bæjarstjórinn átti við með fulla vinnu og þeir vildu gjarnan fá 20 skildinga á dag fyrir að syngja. Þá sagði bæjarstjórinn: „Ég skal borga ykkur 20 skildinga á dag ef þið vinnið allan daginn og ég fæ að ákveða hvað þið syngið mikið.“ Söngvararnir spurðu hvort þeir fengju ekki tíma til að æfa sig, þjálfa röddina og semja ný lög. „Jú, jú,“ sagði bæjarstjórinn. „En ég ákveð hvað hver þarf að æfa sig mikið og við eigum fullt af góðum lögum. Ef við þurfum ný lög vel ég þann ykkar sem mér finnst semja bestu lögin og læt hann semja nokkur ný.“
Þarna lýkur sögunni því ég veit ekki hvernig hún endar. Kannski ákváðu söngvararnir að ganga að tillögu bæjarstjórans og kannski var hann skynsamur bæjarstjóri og lét þá ekki syngja meira en 26 tíma á viku og gaf þeim góðan tíma til að æfa sig. Kannski hafði hann góðan tónlistarsmekk og það var samið fullt af nýjum lögum en kannski hélt hann að það eina sem söngvararnir gerðu væri að fara út á göturnar og gaula eitthvað svo hann ákvað að þeir ættu að syngja allan daginn og þyrftu engan tíma til að æfa sig og semja ný lög.
Kannski voru söngvararnir líka skynsamir og ákváðu að taka ekkert mark á bæjarstjóranum en halda áfram að reyna að fá fleiri skildinga fyrir að syngja 26 tíma á viku. Kannski tókst þeim það og kannski ekki. Við skulum bara vona að þeir hafi enn munað þann tíma þegar brauðið kostaði bara einn skilding og vita að sú tíð gæti komið að það kostaði 20.
Núna er Davíð bróðir minn líka byrjaður að blogga og í tilefni af því bætti ég við tengli á hann á tenglalistann minn.