Ég bara varð að stela þessari mynd frá
Sverri. Mér finnst hún eitthvað svo lýsandi fyrir Framsóknarflokkinn (ekkert samhengi í orðum og gjörðum). Mig minnir líka að Framsókn hafi eitthvað verið að reyna að segjast vera umhverfisvænn flokkur þrátt fyrir stóriðjudraumana og Hummerinn passar einmitt vel inn í þá ímynd.
En snúum okkur nú að Eurovisioninu:
Holland
Hollendingar koma með þreytt trommulag á heimatilbúnu tungumáli sem hljómar eins og barnababl. Það er til nóg af fallegum tungumálum í Evrópu og enn fleiri í heiminum öllum. Ég gef þessu samt 2 stig því það eru mörg lög verri en þetta.
Litháen
Þetta er alls ekki sama lagið og vann í forkeppninni í Litháen. Þeir hafa tekið það og breytt því mjög mikið og til hins verra að mínu mati. í upprunalegu útgáfunni var samt smá húmor og hún var líka meira grípandi. Þetta er samt ennþá smá fyndið og þess vegna fær það 2 stig.
Portúgal
Ég veit eiginlega ekki hvað hefur komið fyrir Portúgala síðustu árin því hér áður fyrr þá sendu þeir oft mjög flott lög í keppnina sem náðu samt af einhverjum ástæðum aldrei góðum árangri. Eftir að þeir breyttu til og fóru að senda svona Europopp þá hefur þeim gengið jafnvel verr og þegar maður sér framlagið í ár þá skilur maður vel hvers vegna. Þetta er bara hreinasta hörmung. Ég gef samt eitt stig en það er bara vegna þess að þetta er Portúgal, svona framlag frá einhverjum öðrum hefði fengið núll.
Svíþjóð
Svíar eru voða ánægðir með þetta og af einhverjum ástæðum gengur þessu lagi vel í veðbönkum. Carola er náttúrulega massasöngkona og krafturinn og vindurinn í hárið er vissulega að gera sig. Verst hvað lagið er vont. Engin melódía eða neitt. Ég gef 1 stig.
Eistland
Ég kem því ómögulega fyrir mig úr hvaða Abba-lagi stefinu í viðlaginu er stolið en það er svo augljóst að það er eiginlega bara óskammfeilið og þar af leiðandi svolítið skemmtilegt. Lagið er líka vissulega grípandi þó svo að það sé eins ófrumlegt og hugsast getur. Ég gef þessu 3 stig.
Bosnía-Herzegóvína
Þetta er mjög flott lag. Það minnir svolítið á írska lagið en ólíkt því þá er power-brake í þessu lagi þannig að það er ekki bara einhver endalaus lágstemmd dramatík. Hins vegar er laglínan ekki nógu góð og voðalega lítið grípandi. Þetta fær þess vegna ekki nema 3 stig frá mér.
Ísland
Jahá. Það er spurning hvernig Evrópa tekur þessu. Á viðtölunum við reynsluboltana þá sýndist mér svona upp og ofan hvort þeir væru að skilja grínið. í ljósi þess að Tyrkir og Litháar eru með svipað djók í gangi má samt alveg vera bjartsýnn. Þetta er líka mun betra lag en þau bæði og ákaflega grípandi. Annað hvort fílar maður þetta í hel eða fær tremma. Sem betur fer er ég í fyrri hópnum og gef því 5 stig.
Læt þessu lokið í bili en það kemur samantekt á undanúrslitunum síðar, a.m.k. áður en þau fara fram.