Ég las í Fréttablaðinu að umhverfisráðherra er hlynntur stækkun á friðlandinu í Þjórsárverum. Fyrrverandi umhverfisráðherra mun vera það líka. í útvarpinu var leitt líkum að því að innan skamms yrði þetta meirihlutaviðhorf í ríkisstjórninni og því fyrirsjáanlegt að friðlandið yrði stækkað og þar með útilokað að Norlingaölduvirkjun yrði nokkurn tíman reist.
Ég er að klára að lesa Draumalandið eftir Andra Snæ. Það er mögnuð bók. Að vísu finnst mér stundum nokkuð langt gengið í samlíkingunum en það er smávægilegur galli á frábærri bók. T.d. er svakalegt að lesa um hvernig Landvirkjun og Orkustofnun hafa gengið á eftir stóriðjufyrirtækjum og reynt að pranga inn á þau orku á gjafverði. Nýjustu fréttir frá Alcoa um að orkan á Íslandi sé ódýrari en í Brasilíu og undanbrögð manna við að upplýsa um orkuverðið skjóta stoðum undir þessa frásögn.
Það má segja að þessi bók sé einn af þáttunum sem eru endanlega að drepa stóriðjustefnuna og virkjunarbrjálæðið. Nú er eftitt fyrir einn mann að segja íslendingar vilja ekki meiri virkjanir og stóriðju en ég held að fleiri og fleiri landsmenn séu að komast á þá skoðun og framtíð landsins liggi ekki þar. Nýjustu fréttir af væntanlegri stækkun friðlandsins í Þjórsárverum benda til að þessari skoðun sé að aukast fylgi í ríkisstjórninni. Hún á væntanlega eftir að endurspegla vilja landsmanna þegar fram í sækir og þróunin hlýtur að verða sú að stóriðjustefnan verður lögð niður hægt og rólega á næstu árum. Strax í dag held ég að sá stjórnmálamaður sem legði til að gera Langasjó að uppistöðulóni gæti hvatt sinn pólitíska feril og eftir Alþingiskosningar 2011 þá verður stóriðjustefnan hluti af fortíðinni og í sögubókum verður fjallað um tímabilið frá stofnun ísal til og með stækkunar þess ávers á næstu árum sem stóriðjutímabilið í atvinnusögu Íslands. Rétt eins og við í dag tölum um Nýsköpunartogarana, síldarævintýrin og skútuöldina. Eitthvað sem menn hafa misjafnar skoðanir á og þykir áhugavert rannsóknarefni en er þó fyrst og fremst fortíðin.
En hvernig kemur Björn Bjarnason þessu við? Nákvæmlega ekki neitt. Ég man bara svo vel að þegar Björn vildi stofna íslenskan her þá var gert grín að honum og Sigmund teiknaði hann aldrei öðruvísi en í gervi Don Kíkóta. Samt fór það svo að þó enginn tæki Björn alvarlega og allir hlægju að honum þá tókst honum að stofna íslenskan her. Sá er reyndar í dulargevi og heitir friðargæsla en er her engu að síður. Nú vill Björn stofna leyniþjónustu og þá hlæja ekki jafn margir. Samt er hugmyndin jafn galin og hlægileg og íslenski herinn á sínum tíma. Allt þetta hlýtur að opna augu manna fyrir því að Björn Bjarnason er stórhættulegur maður. Mér dettur í hug að best væri að útvega honum bandarískan ríkisborgararétt og koma honum í Senatið. Það virðist vera samkoma að hans skapi. Raunhæfara væri samt líklega að útvega honum notalegt kontórstarf hjá Friðargæslu Sameinuðu Þjóðanna. Þá gerir hann ekki lengur óskunda hér á klakanum og hver veit nema hann fái fallegan einkennisbúning sem hann getur skrýðst í heimsóknum til Afganistan. Ég legg samt til að Björn fái bara svona byssu með rauðum tappa í hlaupinu sem í heyrist klikk þegar þrýst er á gikkinn svo hann valdi engum alvarlegum skaða.