Sannanir ví­sindanna

Mikið leiðist mér þegar menn fara að tala um að ví­sindin hafi ekki sannað eitt eða annað. Þessarar tilhneigingar gætir helst meðal manna sem efast um þróunarkenningu Darwins og benda á að hún sé „bara“ kenning. Þetta eru menn sem myndu reyna að sanna ví­sindalegar kenningar frekar en afsanna þær. Ef svona maður væri beðinn um að gera ví­sindalega rannsókn á því­ hvort vatn syði við 100°c myndi hann sjóða vatn á hellunni heima hjá sér og mæla nákvæmlega við hvaða hitastig vatnið syði og voila; það sýður við 100°c og kenningin er sönnuð (og er þá væntanlega ekki kenning lengur). Maðurinn gæti framkvæmt þetta hundraðogfimmtí­u sinnum og sannað þannig kenninguna aftur og aftur, en alvöru ví­sindamaður þyrti ekki að sjóða vatn nema einu sinni undir miklum þrýstingi og fá þá út að vatn sýður við 150°c til að afsanna hana. Það er nefnilega það sem ví­sindin ganga út á; að setja fram kenningar sem lýsa heiminum og reyna sí­ðan að afsanna þær. Þær kenningar sem ekki reynist unnt að afsanna hljóta viðurkenningu sem lí­klegur sannleikur. Hins vegar eru þær alltaf kenningar og ekkert verri fyrir það. Þannig er það með þróunarkenninguna. Allt frá því­ að hún var sett fram hafa menn reynt að afsanna hana en ekki tekist. Þróunarkenningin hefur tekið breytingum. Hún býður upp á nokkrar mögulegar leiðir sem mannkynið gæti hafa þróast eftir en hún er í­ grunninn alveg örugglega rétt, þar sem enn hefur ekki tekist að afsanna hana. Þetta finnst mönnum sem eiga erfitt með að samþykkja að menn séu komnir af öpum alveg skelfilegt. Þeir átta sig nefnilega ekki að samkvæmt þróunarkenningunni gerðist það alls ekki þannig. Það var enginn Simpansi í­ tré í­ Afrí­ku sem ákvað allt í­ einu að skokka út á sléttuna og gerast maður. Simpansar og menn eiga hins vegar sameiginlegan forföður sem var þá hvorki api né maður. Það er í­ raun alveg jafn rétt að segja að apar séu komnir af mönnum eins og öfugt. Á það má lí­ka benda að ýmislegt sem við köllum lögmál eru kenningar. Þyngdarlögmálið heitir „Theory of gravity“ á ensku. Samt held ég ekki að nokkur maður sem hefur misst brauð með sultu á gólfið efist um þyngdaraflið vegna þess að það er „bara“ kenning.