í gær, og raunar einhvern tíman áður, hef ég látið í ljós þá skoðun að ferðamennska sem atvinnustarfsemi falli ekki að stefnu Vinsti-græns framboðs og einnig að ég sé ekki hrifinn af henni sjálfur. Samt hef ég gaman af því að vera ferðamaður. Þrátt fyrir þessa skoðun mína er ég ekki Vinstri-grænn heldur finnst mér einungis nauðsynlegt að benda þeim sem formæla álversstækkunum og -byggingum og virkjunarframkvæmdum á að vilji þeir vera samkvæmir sjálfum sér verða þeir einnig að vera á móti ferðamennsku (sem ég er og er þar af leiðandi líka andsnúinn virkjunaráformum og stóriðjustefnu).
Fyrir þessu eru einkum tvennar ástæður. í fyrsta lagi hafa Vinstri-grænir lagt mikla áherslu á að fjölga störfum sem kalla á mikla menntun, s.k. hálaunastörf sem krefjast fagmenntunar. í ferðamennsku er lítið um svona störf og hlutfallslega minna en í öðrum atvinnugreinumd, sbr. Although there are fewer professional jobs than in other sectors, opportunities do exist for poeple with particular skills such as chefs. Það eru s.s. störf sem krefjast fagmenntunar, t.d. störf leiðsögumanna, en þau eru færri en í öðrum greinum (t.d. iðnaði). í öllum heiminum starfa um 7% mannaflans með beinum hætti við ferðamennsku. Þegar bætt er við afleiddum störfum hækkar þessi prósenta og sé litið til þess að í stórum hluta heimsins er skipulögð ferðamennska annað hvort mjög lítil eða ekki til staðar hlýtur að vera hægt að draga þá ályktun að á Vesturlöndum sé þetta hlutfall hærra. Ef stjórnvöld leggja áherslu á ferðamennsku sem atvinnugrein og reyna með virkum hætti að auka veg hennar má gera því í skóna að hlutfallið hækki jafnvel meir. Þannig mundi ríkisstjórnin beinlínis ýta fólki út í atvinnugrein þar sem láglaunastörf sem krefjast lítillar menntunar eru mun stærra hlutfall en í öðrum atvinnugreinum. í Ungverjalandi eru 7,8% þeirra sem vinna við ferðamennsku með háskólagráðu. Ég fann ekki tölur um aðra atvinnustarfsemi eða tölur frá öðrum löndum af einhverri ástæðu. Hins vegar má lesa á Wikipediu að á Vesturlöndum stundi allt að 50% fólks nám á háskólastigi einhvern tíman á ævinni.
í öðru lagi gefa Vinstri-grænir sig út fyrir að vera umhverfisverndarflokklur. Samt er erfitt að ímynda sér atvinnustarfsemi sem hefur víðtækari umhverfisáhrif en ferðamennska. Samkvæmt United Nations Environmental Programme (UNEP) hefur ferðamennska einkum áhrif á þrennt; náttúruauðlindir (einkum vatnsforða), mengun og náttúrurask. Um þetta má lesa í þessari grein. Ferðamenn ganga mjög nærri auðlindum þeirra landa sem þeir heimsækja og þá sérstaklega í löndum þar sem vatnsskortur er viðvarandi. Stór hluti auðlinda jarðarinnar fer líka í ferðamennsku og þá einkum olía sem er ekki einungis notuð til að knýa flugvélar, skip, lestir og rútur heldur er einnig notuð í framleiðslu hvers konar varnings sem svo er seldur ferðamönnum eða notaður í tengslum við ferðamennsku, s.s. bakkar undir flugvélamat o.s.frv. Ætla má að mikið mætti vinna í því að varðveita auðlindir jarðarinnar með því að berjast gegn ferðamennsku. Hins vegar má ætla að ferðamaðurinn myndi menga jafn mikið heima hjá sér og annarsstaðar en staðreyndin er sú að svo er ekki. Stór hluti mengunarinnar stafar frá því að koma ferðamanninum á milli staða en einnig af öllum þeim umbúðum sem fylgja ferðamönnum, veitingasölu o.s.frv. Síðasta atriðið snýr svo að því að beinasta leiðin til að eyðileggja náttúruundur er að heimila aðgang ferðamanna að þeim. Sumar perlur veraldarinnar hafa nú verið lokaðar af til að varðveita þær eða aðgangur takmarkaður, s.s. við Sonehange og Taj Mahal. Edward Goldsmith er virtur vistfræðingur og stofnandi tímaritsins The Ecologist. Hann hefur skrifað mjög fróðlega grein um mengun af völdum ferðamennsku sem ég hvet fólk til að lesa ef það vill fræðast meira um þessi mál.
Ég held því áfram að koma af fjöllum þegar ég heyri talsmenn Vinstri-grænna halda áfram að lofsyngja ferðamennsku því í mínum eyrum er lítill sem enginn munur á henni og stóriðju og þetta hljómar svipað og grænmetisætan sem dýrkar nautasteik. Sjálfur er ég bæði andsnúinn ferðamennsku og stóriðju en hef gaman af því að vera ferðamaður og get ekki hugsað mér lífið án afurða stóriðju. Það er því líklega nauðsyn í þessu eins og öðru að finna hinn gullna meðalveg.