Ekki af mér samt. Enda er ekkert að frétta af mér. Maður er bara að vinna og læra. Annars ákvað ég að skrá mig úr einu af námskeiðunum sem ég var í því þetta var bara allt of mikið, þ.e. að vera í þremur námskeiðum. Ég ætla að láta tvö nægja. Núna fer ég að blogga því að það er engin formúla í sjónvarpinu þessa helgina.
Það er tvennt sem hefur vakið athygli mína síðustu daga. í fyrsta lagi að MR vann Gettu betur. Ég sá ekki keppnina alla heldur bara svona síðustu 15 mínúturnar og það var hreint ótrúlegt að fylgjast með því hvernig MR náði að jafna í lokaspurningunni og hafa svo sigur í bráðabana. Þó svo að ég kætist fyrir hönd míns gamla skóla get ég ekki annað en vorkennt MK. Það hlýtur að vera skelfilegt að hafa sigurinn svona í höndunum og missa hann svo frá sér. Ég geri ráð fyrir að Egill Skallagrímsson eigi aldrei eftir að hverfa keppendum MK úr minni. MK komst í úrslit eftir svipaða bráðabanakeppni þar sem þeir höfðu verið undir alla keppnina en náðu að jafna í lokaspurningunni. E.t.v. var þetta skáldlegt réttlæti, a.m.k. hljýtur einhverjum úr MH að hafa fundist það. Annars hefði mér sjálfum fundist prýðilegt ef MK hefði unnið, mér sýndust þeir vel að því komnir.
Hitt sem ég var að hugsa um er álverskosningin í Hafnarfirði. Það er margt ákaflega skrýtið í sambandi við þá kosningu. T.d. hvernig fylgismenn stækkunar hafa talað um að það sé fáránlegt að setja þessa ákvörðun í íbúakosningu og hvernig andstæðingum Samfylkingarinnar hefur tekist að túlka þessa kosningu sem vanhæfni flokksins til að taka ákvarðanir. Það að láta fólkið sjálft hafa völdin í þessu máli er sem sagt ekki ákvörðun. Óskiljanlegast þykir mér að þeir sem tala svona skuli ekki bara líka finnast undarlegt að það þurfi yfir höfuð að hafa kosningar, t.d. til Alþingis. Geta stjórnvöld ekki bara ákveðið hverjir eigi að vera á þingi?
Niðurstaðan gæti bætt kjör allra landsmanna verulega. Hún nægir þó ekki ein til. Það þarf líka að stöðva stóriðjuáform annars staðar á landinu til að koma böndum á þensluna. Efnahagsástandið hérna er náttúrulega svo fáránlegt að maður getur ekki annað en hrist hausinn í forundran. Virtir hagfræðingar hafa bent á að það kostar meðalfjölskylduna á Íslandi u.þ.b. hálfa milljón á ári í auka vaxtakostnað að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil á Íslandi. Þetta hefur verið þaggað niður. Þrátt fyrir að vörugjöld á ýmsar vörur hafi verið lögð niður og virðisaukaskattur lækkaður er matvælaverð á Íslandi enn hæst í heimi, vinnudagurinn líka með þeim lengri og framleiðni á hverja vinnustund fáránlega lág. Þetta er arfur frá gamla bændasamfélaginu þar sem vinnuharkan fólst í því að vera stanslaust að frá morgni til kvölds með þeim afleiðingum að fólki vannst náttúrulega varla neitt aðframkomnu af þreytu. Þrátt fyrir þetta er þvergirðingsháttur, þröngsýni, þjóðhyggja og þumbaraskabur meirihlutans (meirihluta stjórnmálamanna a.m.k.) slíkur að það er algert bannorð að ræða hér um Evrópusambandið.
Mér datt eitt í hug í viðbót. Ein fáránlegasta hugmyndin sem hefur verið í umræðunni síðustu daga er að færa framhaldsskólann yfir til sveitarfélaganna. Gleymum ekki að þau geta varla rekið grunnskólana skammlaust í dag. Hvað þá að færa heilsugæsluna yfir til þeirra. Skynsamlegast væri held ég að flytja sem flest verkefni frá sveitarfélögunum og leggja þau svo niður í kjölfarið. Á Íslandi búa ekki nema um 300.000 manns. Það er álíka mikið og í litlu sveitarfélagi erlendis. Við þurfum ekkert fleiri sveitarfélög. Lausnin er bara að sameina þessi tvö stjórnsýslustig.