Þá er Eurovisionið byrjað fyrir alvöru. í gær var fyrsti kynningarþátturinn í sjónvarpinu og það var gaman að sjá hina sænsku Pirelli aftur (eða eru það einhver dekk)? Það eru komnir tveir nýir í þáttinn og mér fannst sá danski mjög skemmtilegur en sá norski var frekar leiðinlegur. Eiríkur og Thomas stóðu hins vegar vel fyrir sínu. Ég vil líka gefa þýðandanum prik fyrir að nota orð eins og sprund og launhelgar í þýðingunni. Settið er líka skemmtilega hallærislegt og slönguseríurnar voru alveg frábærar. En kíkjum þá á lögin:
1. Búlgaría – Voda. Þetta er mjög dæmigert Austur evrópskt lag með þjóðlagaívafi og trommum en það óvanalega er teknótakturinn sem dunar undir. Það hefði átt að gera þetta lag alveg frábært því þetta Austur evrópska etnódót er yfirleitt mjög grípandi og flott en það var eiginlega það eina sem vantaði í þetta lag. Ég gef því 3. Ég er sammála því sem þurirnir sögðu að þetta virkaði frekar eins og langt intró.
2. ísrael – Push the Button. Til að byrja með minntu þeir mis svolítið á Madness en svo kom rappkafli í lagið og svo einhver annar kafli o.s.frv. Þetta var bara mjög vont. Ég gef 0.
3. Kýpur – Comme Ci, Comme Ca. Mér fannst þetta lag mjög flott. Það getur haft eitthvað að gera með það að mér finnst flott að heyra rokk sungið á frönsku. Það eina sem vantar upp á fimmuna er að lagið er ekki alveg nógu grípandi. Ég gef 4.
4. Hvíta Rússland – Work your Magic. Þetta var tvímælalaust besta lagið fram að þessu. Bæði er lagið mjög flott og grípandi og svo er það vel sungið. Söngvarinn var hins vegar frekar klígjuvekjandi (minnti mig samt svolítið á Skara Skrípó). Þarna er um að ræða rokkað Austur evrópskt etnó-popp með grípandi viðlagi. Hefur það eina sem Búlgaríu vantaði. Ég gef 5.
5. Ísland – Valentine Lost. Eiríkur er náttúrulega bara flottur en eitthvað fannst mér lagið missa marks við að vera flutt yfir á ensku. Kannski var það bara hljóðblöndunin en ég heyrði varla textann og það varð til þess að viðlagið (sem er mjög grípandi) hvarf einhvernveginn. Ég vona að þetta verði skýrara í keppninni því eins og þetta var þarna get ég bara gefið því 3.
6. Georgía – Visionary Dream. Söngkonan sem flytur þetta lag er gullfalleg og hún syngur líka ákaflega vel. Lagið er hins vegar ekki alveg nógu gott. Ég man satt að segja frekar lítið eftir þessu en ég ætla að gefa því 3.
7. Svartfjallaland – Adje Kroci. Þarna vantar hattinn yfir c-ið. Víeóið var verulega flott. Hvítir brúðarkjólar og mótorhjól er samsetning sem virkar af einhverjum ástæðum. Keppnin virðist ætla að verða nokkuð rokkuð í ár því þarna var enn eitt rokklagið á ferð. Þetta lag var meira grípandi en það íslenska en ekki jafn grípandi og það frá Hvíta Rússlandi. ílíka og Kýpur og því gef ég 4.
8. Sviss – Vampires are Alive. Þetta var mjög flott en um leið ákaflega skrýtið. Ég vona að gaurinn sé að djóka því sem grín er þetta alveg stórkostlegt en ef hann meinar þetta þá er þetta ákaflega sorglegt. Lagið og uppsettninginn minnti mig mikið á Buffy the Vampire Slayer en þess ber þó að geta að ég hef ekki séð Buffy þátt í ákaflega mörg ár. Full kjánalegt en ég gef þessu samt 3.
9. Moldavía – Fight. Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá alla þessa menn í hvítu skyrtunum detta í moldina og verða drulluskítuga var að þetta væri líklega Ariel Ultra auglýsing og þeir væru allir að hlaupa í þvottahúsið en svo bara hlupu þeir og hlupu og enduðu hvergi. Hvert voru mennirnir eiginlega að hlaupa? Hvað átti þessi eldur líka að merkja? Lagið var samt allt í lagi. Rokkað en ákaflega óeftirminnilegt. Ekki alveg jafn gott og ísland eða Georgía svo ég gef 2.
10. Holland – Top of the World. Ég veit eiginlega ekki alveg hvað á að segja um þetta. Hljómaði eins og framlag frá Þýskalandi einhvern tíman á 9. áratugnum. Ég fékk smá nostalgíukast og fílaði þetta bara í botn. Þar að auki syngur söngkonan ákaflega vel og er voða sæt, lagið grípandi og retró í tísku svo ég ætla bara að skella á þetta 5.
Ég býst við að það séu ekki allir sammála mér um þetta en mér er líka alveg sama. Það lítur hins vegar út fyrir að Eurovision verði ákaflega fínt í ár.