Ég er einn af stuðningsmönnum Samfylkingarinnar sem fagnaði því að gengið var til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Aðallega vegna þess að ég gat ekki ímyndað mér að Vinstri-grænir og Framsókn gætu unnið saman í stjórn en líka vegna þess að ég held að hvaða stjórn sem er sem Vinstri-grænir eiga aðild að hljóti að verða afturhalds og íhaldsstjórn. Ég hafði samt ákveðna fyrirvara á gleði minni, þ.e. ég vonaði að Samfylkingin tæki ekki bara við óskiptu búi Framsóknar, sem reyndist þeim illa, heldur fengi önnur ráðuneyti, t.d. mennta- eða fjármálaráðuneyti. Nú er komið í ljós að Samfylkingin fær skertan hlut Framsóknar (sem þó var 10% minni flokkur þegar hann myndaði stjórn með Sjálfstæðisflokknum). Það er sem sagt búið að fjarlægja landbúnaðar- og heilbrigðisráðuneyti úr Framsóknarhlutanum (tvö mjög stór ráðuneyti) og setja samgöngumálaráðuneytið inn í staðinn (sem varla er jafn stórt þó það sé mikilvægt). Til að jafna hlut flokkanna er búið að skella landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytunum saman og slíta Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið (sem alltaf var frekar lítilvægt ráðuneyti þangað til stóriðjustefnan komst á flug) í tvennt. Samfylkingin fær fimm ráðuneyti en sex ráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn sjö ráðuneyti en líka sex ráðherra. Þetta þykja mér mjög slæmir samningar. Stjórnin byrjar sem sagt á yfirgangi Sjálfstæðisflokksins yfir Samfylkinguna sem tekur því með bros á vör. Heimilisofbeldið á stjórnarheimilinu er hafið og Ingibjörg ber í bætifláka fyrir eiginmanninn (sem vel að merkja skipaði einungis eina konu sem ráðherra). Ég gerði mér vonir um að þetta yrði góð stjórn bæði fyrir land og flokk en byrjunin lofar ekki góðu. Haldi Samfylkingin þessu stjórnarsamstarfi áfram á svipuðum nótum er ekki ólíklegt að það verði hún sem fái 12% í næstu kosningum. Skamm Ingibjörg, skamm.
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: maí 2007
Eurovision 7
Mikið þykir mér skemmtilegt að heyra hvað Íslendingar eru vonsviknir yfir því að Eiríkur Hauks komst ekki áfram. Það virðist engu skipta þó Ísland hafi aldrei komist upp úr undankeppninni, alltaf gera menn sér jafn stórar og miklar vonir og alltaf verða menn jafn svekktir og sárir þegar það gerist ekki og fara að tala um Austur-Evrópu mafíuna (sem er álíka raunverulegt fyrirbæri og Norðurlandamafían). Það merkilega er að þeir sem sárastir eru virðast vera þeir sem almennt tala frekar um að þeir hafi engann áhuga á Eurovision og þetta sé allt saman fáránlegt og ömurlegt hvort sem er. Fréttir um þetta komast í aðalfréttatíma hjá Rúv og fólk er hvatt til að kjósa bara Svíþjóð og Finnland í kvöld. Eins og það þurfi að hvetja Íslendinga til þess. Við búum við það að hafa sama tónlistarsmekk og Norðmenn, Svíar og Danir og kjósum þá þess vegna.
Annars er þessi hugmynd um Austur-Evrópu mafíuna mjög áhugaverð, því þá hljóta þessi lönd að hafa sammælst um það á síðasta ári að komast ekki upp úr undankeppninni eða lenda í neðstu sætunum í úrslitunum svo þau gætu öll tekið þátt í undankeppninni í ár svo þau gætu komið í veg fyrir að Ísland kæmist áfram. Það hlýtur að þurfa mikla paranoju til að hugsa svona. Við skulum muna að flest Vestur-Evrópu löndin eru komin í úrslitin nú þegar. Hvort sem það er vegna þess að þau halda keppninni uppi eins og Bretland, Frakkland, Þýskaland og Spánn eða vegna þess að þau fengu helling af atvkvæðum (frá Austur-Evrópu) í fyrra eins og Svíþjóð, Finnland og írland. Austur-Evrópuþjóðir eru svo einfaldlega fleiri en Vestur-Evrópuþjóðirnar og því eðlilegt að þær séu fleiri í úrslitum Eurovision. Merkilegt finnst mér líka að ég hef engan heyrt halda öðru fram en að Austur-Evrópulöndin hafi ekki einfaldlega verið með bestu lögin núna. A.m.k. má benda á að DJ Bobo er helsti stuðningsmaður Íslendinga í þessum málflutningu og svissneska lagið var náttúrulega ömurlegt.
Annars ætla ég að hætta þessu bulli og spá fyrir um úrslitin í kvöld. Sjálfum finnast mér lögin frá Hvíta-Rússlandi og Rússlandi flottust. Hins vegar má ekki vanmeta Tyrki í þessu sambandi og Grikkir koma líka sterkir til leiks. Svíar fá örugglega fullt af stigum frá Vestur-Evrópu sem geta fleytt þeim langt og svo má ekki gleyma úkraínu og Lettlandi sem eru með öðruvísi atriði sem eflaust á eftir að ganga vel. Þessum 7 löndum ætla ég að raða í sæti svona:
7. Grikkland
6. Lettland
5. Tyrkland
4. úkraína
3. Svíþjóð
2. Hvíta-Rússland
1. Rússland
Samkvæmt þessu spái ég Rússum sigri en keppnin í ár er það jöfn að það ætti ekki að koma á óvart þó hvaða land sem er af þessum 7 vinni. Það er athyglisvert að á þessum lista hjá mér er bara eitt land frá Vestur-Evrópu. Ég vona að það þýði ekki að ég sé orðinn hluti af Austur-Evrópu mafínunni.
Eurovision 6
Jæja, þá er komið í ljós hvaða lönd komust áfram upp úr undankeppninni. Ég ætla að byrja á því að rifja upp spánna mína:
1. Belgía
2. Hvíta-Rússland
3. Tyrkland
4. Makedónóa
5. Svartfjallaland
6. Danmörk
7. Moldavía
8. Slóvenía
9. Lettland
10. Ísland (Já, við skulum hafa það með bara upp á bjartsýnina)
Löndin sem komust áfram voru hins vegar:
Hvíta-Rússland
Tyrkland
Makedónía
Moldavía
Slóvenía
Lettland
Ungverjaland
Georgía
Serbía
Búlgaría
Reyndar skil ég ekki alveg afhverju ég var ekki með Serbíu á listanum mínum. Þetta þýðir að ég var með fimm lönd rétt af tíu sem er líklega ekki alveg nógu góður árangur. Það eru tvö lönd sem komust áfram sem koma mér á óvart, þ.e. Ungverjaland og Búlgaría. Ég ætla að reyna að spá fyrir um úrslitakeppnina annað kvöld eða á laugardaginn.
Eurovision 5
Það er alls ekki nógu góð frammistaða hjá mér að blogga ekki um löndin í úrslitakeppninni fyrr en núna þar sem þátturinn með þeim var sýndur á föstudaginn. Ég hef það helst mér til afsökunar að ég var að klára síðasta verkefnið sem ég þurfti aðskila inn í háskólanum en það er nú eiginlega bara yfirklór. Hættum þá þessu kjaftæði og fjöllum lítilsháttar um löndin sem þegar hafa tryggt sér sæti í úrslitum:
1. Bosnía-Herzegovína, RijekaBez Imena: Þetta er voðalega settlegt og sætt lag með sætri söngkonu og sætu myndbandi. útgangurinn á henni þar sem hún var að syngja á þessum dýpkunarpramma (eða hvað svo sem það var) var þó full múslímskur fyrir minn smekk. Þetta er voðalega flatt og leiðinlegt en fellur þó einhvern veginn eins og flís við rass að þessum balkanfíling sem er að yfirtaka keppnina svo þessu á eflaust eftir að ganga vel. Ég gef þessu 2 stig.
2. Spánn, I love you Mi Vida: Spánverjar tefla fram strákabandi sem er líklega besta svoleiðis bandið í keppninni í ár. Þeir syngja betur en þeir lettnesku, þeir eru sætari en þeir sænsku og lagið er meira grípandi en hjá Andorra. Þetta á eflaust eftir að fá fullt af stigum frá yngra fólkinu. Það er samt eitthvað við þetta sem höfðar ekki til mín. Ég gef þessu samt 3.
3. írland, They can’t stop the Spring: írarnir eru búnir að fatta að þeir eiga bara að senda írska þjóðlagatónlist í keppnina. Afgangurinn af Evrópu væntir þess frá þeim. Þarna er allt sem þarf í slíka tónlist, blikkflautur, fiðlur og söngur með viskírödd. Það eina sem er að er að það vantar alla laglínu í þetta. Ég gef þessu 3 stig.
4. Finnland, Leave me Alone: Þetta er enn eitt rokklagið í keppninni. Það ljóst að eftir að Lordi vann í fyrra hafa mjög margar þjóðir fallið í þá gryfju að herma að meira eða minna leyti eftir þeim (þ.á.m. Ísland). Það er kannski ekki hægt að saka Finnana um að herma eftir sjálfum sér. Þetta lag er álíka og það íslenska svo ég gef því sömu einkunn, þ.e. 3.
5. Litháen, Love or Leave: Þetta er ákaflega mikil meðalmennska. Litháar slógu í gegn í fyrra með We are the Winners (We are the Wieners). Ég skil eiginlega ekki í ljósi þess hvað því lagi gekk vel að þeir falli í þessa meðalmennskugildru í ár. Þetta lag er skítsæmilegt og ekkert meira en það. Ég gef 2.
6. Grikkland, Yassou Maria: Þetta lag er alveg dæmigert Miðjarðarhafspopp og bara fínt sem slíkt. Sól, sætir gæjar og flottar píur, sæmilega grípandi viðlag o.s.frv. Maður hefur bara heyrt þetta svo oft. Þetta er svo sem ekkert verra en svona tónlist er yfirleitt þó svo ég hafi heyrt betri sólarlandamúsík. Það er bara þannig að þegar menn tefla fram mjög þreyttri tónlist þá verður hún að hafa eitthvað til að bera umfram aðra til að maður taki eftir henni. Það hefur Grikkland ekki í ár (Ekki eins og Helena hin fagra um árið). Ég gef 2.
7. Svíþjóð, The Worrying Kind: Hvað er hægt að segja? Svíarnir eru alltaf eins en um leið með einhverjar smá tilfæringar sem gera það að verkum að maður verður ekki jafn svakalega þreyttur á þeim og sólstrandargæjunum. Þetta er vissulega ABBA með einhverjum viðbótum (eins og alltaf) en viðbæturnar í ár eru nokkuð fínar, lagið er gott og grípandi og maður getur hummað með strax við fyrstu hlustun. Ég gef þessu alveg 4.
8. Frakkland, L’amour Á La Francaise: Frakkar eru ekki þekktir fyrir að senda grínlög í keppnina en þeir brjóta blað í ár og gera meira að segja grín að sjálfum sér (sem er mjög ófranskt í mínum huga). Þetta er ágætis lag, sætt og huggulegt en ekki mikið meira. Það hefðu verið 3 stig en ég gef eitt auka fyrir ferskleikann svo þau verða 4.
9. Rússland, Song #1: Titillinn segir eiginlega allt sem segja þarf. Rússarnir eru mjög metnaðarfullir í ár og þetta er alveg frábært atriði. Það er feykilega vel sungið af tveimur gullfallegum söngkonum. Það er töff en um leið grípandi. Það hefur bókstaflega allt sem til þarf. Keppnin um sigurinn verður á Milli Rússa og Hvít-Rússa í ár. Ég gef þessu 5.
10. Þýskaland, Frauen Regier’n Die Welt: Þjóðverjum er löngu orðið ljóst að þeir eigi enga möguleika í þessari keppni og eru hættir að reyna. Eftir að fínum lögum á borð við íœber Die Bruche Gehen og Lass Die Sonne in Dein Hertz á 9. áratugnum fóru þeir að senda arfaslök atriði. Svo kom smá kafli í kringum The Road to Jerusalem, en annars hafa þeir bara sent grín síðustu ár, sbr. Wadde, Hadde, Do, Do, Dah. Ég kýs að flokka þetta í þann hóp enda öllum ljóst að sú glataða tónlistarstefna Swing er löngu dauð (hvað þá á þýsku). Þeir fá nokkur stig fyrir grínið. Ég gef þessu 3.
11. úkraína, Dancing Lasha Tumbai: Vá, hvað þetta er sýrt. Þeir hafa tekið Sylvíu Nætur konseptið og þróað það áfram með mjög undarlegu twisti. Maður veit varla hvort maður á að hlæja eða gráta. Lagið sjálft er náttúrulega arfaslæmt en með þeim fáránlegasta la, la, la kafla sem ég hef heyrt sem nær því á einhvern ofurundarlegan máta að vera grípandi. Þetta er náttúrulega bara tær snilld, en á alls ekki skilið að vinna eða komast langt. Ég gef þessu 5.
12. Bretland, Flying The Flag (For You): Ætli þetta sé lélegasta lagið í ár? Ég nenni eiginlega ekki einu sinni að finna upp á einhverju til að segja um þetta. Jú, stelpurnar voru sætar. 0 stig.
13. Rúmenía, Liubi, Liubi, I love you: Þetta lag er sungið á mörgum mismunandi tungumálum og illa á þeim öllum. Það getur gefist misvel. Sumar þjóðir eru mjög upp með sér þegar útlendingar reyna að tala eða syngja tungumál þeirra en aðrar stökkva upp á nef sér þegar farið er með það eins og þarna. Þetta getur því komið aftan að mönnum. Þegar við bætist að lagið sjálft er frekar lélegt og flytjendurnir ekki góðir söngvarar þá fellur þetta eiginlega. Ég gef þessu 1 stig.
14. Armenía, Anytime You Need: Þetta er svolítið flott lag, það er ekki hægt að neita því. Það er vel sungið, töff og myndbandið flott. í raun er ekkert hægt að setja út á þetta en það er alls ekki spennandi. Það hefur verið vandlega gætt að því að það væri ekkert í þessu sem væri verulega hægt að setja út á en á móti kemur að það er ekkert heldur sem grípur mann. Ég gef þessu 3.
Þá er ég búinn að fjalla um öll lögin í keppninni. Ég ætla ekki að spá fyrir um úrslitin fyrr en ljóst verður hvaða lönd komast áfram úr undankeppninni. Góða skemmtun.
Grímsey
Á fimmtudaginn síðasta fór ég til Grímseyjar. Það kom sjálfum mér algerlega í opna skjöldu. Ég var að funda með Sigurði Þór formanni Kennarasambands Norðurlands-vestra á Bláu könnunni og tveimur tímum síðar var ég kominn út í Grímsey. Á miðjum fundi fékk ég nefnilega símhringingu þar sem mér var sagt að hópur fólks væri að fara út í Grímsey til að halda kosningafund og það væru laus sæti í flugvélinni. Langaði mig að koma með? Auðvitað! Það er ekki á hverjum degi sem manni gefst tækifæri til að fara til Grímseyjar. Það kom í ljós að Samfylkingin í Norðausturkjördæmi var að fara að halda kosningafund og við vorum 15 eða 16 sem fórum til Grímseyjar í ægifögru vorveðri, flugum út Eyjafjörðinn, yfir Kaldbak og Fjörður og þaðan út í Grímsey. Þetta var n.k. útsýnisflug, flogið lágt og fagurt útsýni til allra átta.
í Grímsey var hins vegar þoka þó svo flugvélinni tækist að lenda. Við höfðum helst áhyggjur af því að við yrðum veðurteppt í eyjunni þar sem flugvélin fór strax aftur til Akureyrar og flugmennirnir ætluðu að koma aftur síðar til að ná í okkur en þokan þykknaði stöðugt. Kosningafundurinn var haldinn í félagsheimilinu þar sem grunnskóli staðarins er einnig til húsa. Ég hitti skólastjórann á flugvellinum en hann og konan hans (sem er kennari við skólann) voru að fara í Skagafjörð á fund fámennra skóla. Hins vegar skoðaði ég skólann og varð yfir mig hrifinn. Þarna er augljóslega unnið mjög skapandi starf, myndir nemenda voru út um allt og hljóðfæri í einni stofunni. Svona litlir skólar hafa ekki sömu möguleika og stærri skólar hvað varðar tækjabúnað og önnur gögn en starfið sem þar fer fram er oft nánara og hnitmiðaðra en það getur verið í stærri stofnunum.
Það var gaman á kosningafundinum þó svo upplýsingarnar sem þar komu fram um smíði nýju Grímseyjarferjunnar væru sláandi. Fundurinn var ekki fjölmennur en góðmennur, við aðkomufólk vorum meira en helmingur fundarmanna.
Eftir fundinn fór ég í göngutúr um eyjuna í þokunni. Gekk í gegnum þorpið norður eftir eyjunni og skoðaði fuglalífið. Ég sá meira að segja tré í skjóli á bakvið skjólvegg sunnan undir einu húsinu. Það er líklega eina tréð í Grímsey. Fuglabjörgin voru þéttsetin og ég mundi eftir að hafa skoðað kort og myndir í félagsheimilinu þar sem sást hvernig eyjunni var skipt á milli bæja í gamla daga. Bæirnir áttu samt ekki endilega björgin í sínu landi heldur var þeim skipt þannig að prestsetrið átti besta bjargið og svo koll af kolli. Þegar ég var búinn að fá mig fullsaddan á norðangjólunni (sem var ekki sterk en þó nokkuð köld) snéri ég við og gekk yfir einhverja móa suður að flugstöðinni. Þar er búið að koma fyrir palli með stálstöng undir og skiltum sem vísa á helstu staði á jarðkringlunni ásamt upplýsingum um hve langt sé á hvern stað. Þetta var sem sagt heimsskautsbaugurinn. Ég gekk yfir hann fram og til baka nokkrum sinnum og dansaði síðan vikkivakka í kringum pallinn (maður getur leyft sér svona vitleysu þegar maður er einn á ferð). Þegar ég kom inn í flugstöðina spurði konan sem var að vinna þar hvort ég væri búinn að fara yfir bauginn. Ég játti því og hún útbjó handa mér staðfestingarskjal og spurði mig svo hvort ég vildi ekki fá bílinn hennar láðaðan til að kíkja á vitann því það voru ennþá um 20 mínútur þangað til vélin færi (hún hafði sem sagt getað lent þrátt fyrir þokuna). Ég vissi ekki alveg hverju svara skyldi en kunni einhvern vegin ekki við að hirða bílinn af ókunnugri manneskjunni og fara að eyða bensíninu á bílnum hennar. Ég geri ekki ráð fyrir því að bensín í Grímsey sé á neinum kostakjörum.
Ég settist því niður og fór að lesa Séð og Heyrt sem var til í miklu úrvali þarna á vellinum. Nokkrum mínútum síðar kom samferðafólk mitt og voru sumir klyfjaðir pokum úr minjagripaversluninni. Þá var öllu liðinu að sjálfssögðu smalað saman út á heimskautsbaug og teknar hópmyndir. Kristján Möller minntist á að baugurinn hefði verið færður eitthvað norðar frá því að hann kom þarna fyrst. Á leiðinni inn í flugstöðina aftur varð mér litið á póstkassann og varð undrandi á þeim upplýsingum sem þar komu fram að pósti á Höfuðborgarsvæðið yrði dreift samdægurs en póstur út á land þyrfti að bíða eftir næstu póstdreifingu. Þetta fundust mér merkilegar upplýsingar á póstkassa í Grímsey.
Á leiðinni aftur til Akureyrar var flokið vestur og inn Eyjafjörðinn, lágflug svo ég gat skoðað Ólafsfjörð, Dalvík, Hrísey, írskógsströnd og Hauganes vel úr lofti. Þetta var mjög gaman og allgjört ævintýri að lenda í þessu svona gersamlega að óvörum. Ef þú hefur einhvern tíman tækifæri til að kíkja til Grímseyjar þá mæli ég með því. Það er einstök upplifun.