Það er alls ekki nógu góð frammistaða hjá mér að blogga ekki um löndin í úrslitakeppninni fyrr en núna þar sem þátturinn með þeim var sýndur á föstudaginn. Ég hef það helst mér til afsökunar að ég var að klára síðasta verkefnið sem ég þurfti aðskila inn í háskólanum en það er nú eiginlega bara yfirklór. Hættum þá þessu kjaftæði og fjöllum lítilsháttar um löndin sem þegar hafa tryggt sér sæti í úrslitum:
1. Bosnía-Herzegovína, RijekaBez Imena: Þetta er voðalega settlegt og sætt lag með sætri söngkonu og sætu myndbandi. útgangurinn á henni þar sem hún var að syngja á þessum dýpkunarpramma (eða hvað svo sem það var) var þó full múslímskur fyrir minn smekk. Þetta er voðalega flatt og leiðinlegt en fellur þó einhvern veginn eins og flís við rass að þessum balkanfíling sem er að yfirtaka keppnina svo þessu á eflaust eftir að ganga vel. Ég gef þessu 2 stig.
2. Spánn, I love you Mi Vida: Spánverjar tefla fram strákabandi sem er líklega besta svoleiðis bandið í keppninni í ár. Þeir syngja betur en þeir lettnesku, þeir eru sætari en þeir sænsku og lagið er meira grípandi en hjá Andorra. Þetta á eflaust eftir að fá fullt af stigum frá yngra fólkinu. Það er samt eitthvað við þetta sem höfðar ekki til mín. Ég gef þessu samt 3.
3. írland, They can’t stop the Spring: írarnir eru búnir að fatta að þeir eiga bara að senda írska þjóðlagatónlist í keppnina. Afgangurinn af Evrópu væntir þess frá þeim. Þarna er allt sem þarf í slíka tónlist, blikkflautur, fiðlur og söngur með viskírödd. Það eina sem er að er að það vantar alla laglínu í þetta. Ég gef þessu 3 stig.
4. Finnland, Leave me Alone: Þetta er enn eitt rokklagið í keppninni. Það ljóst að eftir að Lordi vann í fyrra hafa mjög margar þjóðir fallið í þá gryfju að herma að meira eða minna leyti eftir þeim (þ.á.m. Ísland). Það er kannski ekki hægt að saka Finnana um að herma eftir sjálfum sér. Þetta lag er álíka og það íslenska svo ég gef því sömu einkunn, þ.e. 3.
5. Litháen, Love or Leave: Þetta er ákaflega mikil meðalmennska. Litháar slógu í gegn í fyrra með We are the Winners (We are the Wieners). Ég skil eiginlega ekki í ljósi þess hvað því lagi gekk vel að þeir falli í þessa meðalmennskugildru í ár. Þetta lag er skítsæmilegt og ekkert meira en það. Ég gef 2.
6. Grikkland, Yassou Maria: Þetta lag er alveg dæmigert Miðjarðarhafspopp og bara fínt sem slíkt. Sól, sætir gæjar og flottar píur, sæmilega grípandi viðlag o.s.frv. Maður hefur bara heyrt þetta svo oft. Þetta er svo sem ekkert verra en svona tónlist er yfirleitt þó svo ég hafi heyrt betri sólarlandamúsík. Það er bara þannig að þegar menn tefla fram mjög þreyttri tónlist þá verður hún að hafa eitthvað til að bera umfram aðra til að maður taki eftir henni. Það hefur Grikkland ekki í ár (Ekki eins og Helena hin fagra um árið). Ég gef 2.
7. Svíþjóð, The Worrying Kind: Hvað er hægt að segja? Svíarnir eru alltaf eins en um leið með einhverjar smá tilfæringar sem gera það að verkum að maður verður ekki jafn svakalega þreyttur á þeim og sólstrandargæjunum. Þetta er vissulega ABBA með einhverjum viðbótum (eins og alltaf) en viðbæturnar í ár eru nokkuð fínar, lagið er gott og grípandi og maður getur hummað með strax við fyrstu hlustun. Ég gef þessu alveg 4.
8. Frakkland, L’amour Á La Francaise: Frakkar eru ekki þekktir fyrir að senda grínlög í keppnina en þeir brjóta blað í ár og gera meira að segja grín að sjálfum sér (sem er mjög ófranskt í mínum huga). Þetta er ágætis lag, sætt og huggulegt en ekki mikið meira. Það hefðu verið 3 stig en ég gef eitt auka fyrir ferskleikann svo þau verða 4.
9. Rússland, Song #1: Titillinn segir eiginlega allt sem segja þarf. Rússarnir eru mjög metnaðarfullir í ár og þetta er alveg frábært atriði. Það er feykilega vel sungið af tveimur gullfallegum söngkonum. Það er töff en um leið grípandi. Það hefur bókstaflega allt sem til þarf. Keppnin um sigurinn verður á Milli Rússa og Hvít-Rússa í ár. Ég gef þessu 5.
10. Þýskaland, Frauen Regier’n Die Welt: Þjóðverjum er löngu orðið ljóst að þeir eigi enga möguleika í þessari keppni og eru hættir að reyna. Eftir að fínum lögum á borð við íœber Die Bruche Gehen og Lass Die Sonne in Dein Hertz á 9. áratugnum fóru þeir að senda arfaslök atriði. Svo kom smá kafli í kringum The Road to Jerusalem, en annars hafa þeir bara sent grín síðustu ár, sbr. Wadde, Hadde, Do, Do, Dah. Ég kýs að flokka þetta í þann hóp enda öllum ljóst að sú glataða tónlistarstefna Swing er löngu dauð (hvað þá á þýsku). Þeir fá nokkur stig fyrir grínið. Ég gef þessu 3.
11. úkraína, Dancing Lasha Tumbai: Vá, hvað þetta er sýrt. Þeir hafa tekið Sylvíu Nætur konseptið og þróað það áfram með mjög undarlegu twisti. Maður veit varla hvort maður á að hlæja eða gráta. Lagið sjálft er náttúrulega arfaslæmt en með þeim fáránlegasta la, la, la kafla sem ég hef heyrt sem nær því á einhvern ofurundarlegan máta að vera grípandi. Þetta er náttúrulega bara tær snilld, en á alls ekki skilið að vinna eða komast langt. Ég gef þessu 5.
12. Bretland, Flying The Flag (For You): Ætli þetta sé lélegasta lagið í ár? Ég nenni eiginlega ekki einu sinni að finna upp á einhverju til að segja um þetta. Jú, stelpurnar voru sætar. 0 stig.
13. Rúmenía, Liubi, Liubi, I love you: Þetta lag er sungið á mörgum mismunandi tungumálum og illa á þeim öllum. Það getur gefist misvel. Sumar þjóðir eru mjög upp með sér þegar útlendingar reyna að tala eða syngja tungumál þeirra en aðrar stökkva upp á nef sér þegar farið er með það eins og þarna. Þetta getur því komið aftan að mönnum. Þegar við bætist að lagið sjálft er frekar lélegt og flytjendurnir ekki góðir söngvarar þá fellur þetta eiginlega. Ég gef þessu 1 stig.
14. Armenía, Anytime You Need: Þetta er svolítið flott lag, það er ekki hægt að neita því. Það er vel sungið, töff og myndbandið flott. í raun er ekkert hægt að setja út á þetta en það er alls ekki spennandi. Það hefur verið vandlega gætt að því að það væri ekkert í þessu sem væri verulega hægt að setja út á en á móti kemur að það er ekkert heldur sem grípur mann. Ég gef þessu 3.
Þá er ég búinn að fjalla um öll lögin í keppninni. Ég ætla ekki að spá fyrir um úrslitin fyrr en ljóst verður hvaða lönd komast áfram úr undankeppninni. Góða skemmtun.