Ég fór í Holtsel áðan en þar er seldur heimatilbúinn ís undir heitinu sem gefur að líta í fyrirsögninni. Ekki beint þjált nafn en óumdeilanlega alveg hreint frábær ís. Þarna er semsagt búið að útbúa lítið kaffihús á efri hæðinni í fjósinu. Þetta er mjög notalegt umhverfi þar sem hægt er að ganga um bæinn og skoða hænurnar og kýrnar þegar maður er búinn að hesthúsa ísnum. Þarna líkt og annars staðar er hins vegar fallið í þá gryfju sem ég fjallaði um fyrir stuttu og kallast okur. ískúla af þessum frábæra ís kostar sem sagt 150,- kr. Ég skal viðurkenna að meira að segja mér fannst það ekki mjög dýrt. Meira að segja eiginlega bara ásættanlegt verð fyrir eina ískúlu. Ég fékk mér því þrjár kúlur á 450,- kr. Þegar ég fékk ísinn í hendurnar hélt ég að fólkið hlyti að vera að grínast. Minni ískúlur hef ég aldrei nokkurn tímann séð á ævinni. Þær voru svipaðar að stærð og golfkúlur. Þarna var sem sagt allt til alls til að gera þetta að dásamlegri upplifun, frábær ís, fallegt og skemmtilegt umhverfi og ásættanlegt verð en ég held að ég eigi aldrei nokkurn tímann eftir að fara þarna aftur í ljósi þess að vilji maður fá meira en sýnishorn af ís mun það kosta formúgu. Svona er hægt að skemma allt á Íslandi með helvítis okrinu. Þessar okurvangaveltur mínar koma á sama tíma og fréttir berast af því að verð á matvælum í verslunum hefur lítið sem ekkert lækkað eftir að vörugjöldin voru felld niður og virðisaukaskatturinn lækkaður og það þrátt fyrir að krónan hafi styrkst sem ætti að leiða til enn meiri verðlækkana. Þetta eru allt saman asnar Guðjón! Farísear og tollheimtumenn!