Við þekkjum það öll að yfir heimsbygðina (les. hinn vestræna heim) gengur með reglulegu millibili yfir einhver bylgja af kjaftæði hvort sem það er árulestur, lithimnulestur, spámiðlar, hómópatar o.s.frv. Eitt nýjasta kjaftæðið sem hefur þannig tröllriðið vesturlöndum undanfarið er The Secret sem byggir á kjaftæði sem kallast „Law of Attraction„. Ég sá í Fréttablaðinu áðan auglýsingu frá einhverjum kjaftæðissamtökum sem eru að flytja inn útlenskan bullara til að fræða fólk um þetta kjaftæði og hafa þannig peninga af auðtrúa fólki. Allt gott og blessað í sjálfu sér. Fólk ræður sér og sínum fjármunum sjálft og ef það vill eyða peningum í kjaftæði þá getur það gert það. Það sem stakk mig hins vegar í augun var feitletraður texti þar sem bent var á að mörg stéttarfélög borga kostnaðinn eða hluta af honum fyrir sína félagsmenn. Ég vona að þetta sé ekki satt því ég hélt að stéttarfélög gerðu það einungis ef um væri að ræða viðurkend námskeið eða fyrirlestra sem tengjast á einhvern hátt starfi viðkomandi. Ef þetta er satt þá er nefnilega kjaftæðisliðið ekki lengur bara að féfletta fáfrótt fólk heldur líka almannasamtök og það er alvarlegt. Ég ætla að hafa samband við mitt stéttarfélag og spyrja hvort þeir borgi viðkomandi námskeið fyrir félagsmenn og ef það er gert gera við það athugasemdir. Ég vona að fleiri geri það. Síðast þegar ég vissi var nefnilega ekki hægt að fá styrki frá stéttarfélögum til að læra reiki, rúnagaldur eða bambusnudd. The Secret og Law of Attraction er nefnilega nákvæmlega sama kjaftæðið og ESP, andlitið á Mars og Atlantis.
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: desember 2007
Astrópía – fjölskylduspil
Drengirnir fengu Astrópíuspilið í jólagjöf frá Davíð frænda (sem kemur fyrir sem óvættur í spilinu og það var Dagur sem gerði útaf við hann í spennandi bardaga). í gær var þetta spil sem sagt prufukeyrt og reyndist bráðskemmtilegt en heldur langt í spilun. Það tók dálítinn tíma að komast inn í spilunina en þegar maður var búinn að átta sig á því rann spilið án vankanta, þó hefðu leiðbeiningar mátt vera ítarlegri.
Ég lenti í grjóthruni í dauðraríkinu og valdi að komast undan því þeim megin sem styttra var til lyklapéturs. Þá var Dagur hins vegar á undan mér og lenti í öðru grjóthruni, þar með var ég í raun lokaður inni og þurfti að fara langa leið til að komast að lyklapétri. Sú leið lá meðal annars í gegnum fylgsni dreka sem reyndist mér of erfiður (sérstaklega af því að allir hlutirnir sem ég hefði þurft til að vinna hann voru handan grjóthrunsins og fylgsnisins. Þar með var minni þátttöku í raun lokið. Hins vegar komst ég yfir vögguvísugaldur sem maður getur kastað á meðspilara og ég náði að veita Degi fyrirsát og svæfa hann. Þá kom í ljós að engar reglur eru í leiðbeiningarbæklingnum um það hvernig bardaga skal háttað ef maður hefur svæft andstæðinginn. Við komumst að samkomulagi um að ég myndi að sjálfssögðu vinna þar sem Dagur var sofandi þegar á hann var ráðist. Snildaráætlun mín heppnaðist hins vegar ekki þar sem í reglunum kom skýrt fram að ekki má taka nistið af sigruðum andstæðingi (en sá vinnu sem fyrstur kemst heim með nistið). Þar með var mín staða sú að ég gat ómögulega komist í nistið mitt og gat ekki heldur stolið nistinu hans Dags svo Dagur vann þetta, enda náði ég ekki að svæfa hann og drepa fyrr en tveimur reitum frá endinum.
Þetta er hins vegar mjög skemmtilegt spil og við stefnum á að spila það aftur í kvöld.
Jólin
Jólin í ár voru mjög góð. Það fór að snjóa hér á Akureyri á Þorláksmessukvöld og á aðfangadagsmorgun lá u.þ.b. tveggja sentímetra jafnfallinn snjór yfir bænum, ákflega jólalegt og fallegt en þó ekki svo mikið að færð spilltist. Fjölskyldan í Hafnastræti byrjaði daginn óvenjusnemma þar sem Kári fór á Tae-Kwon-Do æfingu kl. 9 þennan morgun og afgangurinn af fjölskyldumeðlimum dreif sig í sund á meðan. Að því loknu var haldið heim og síðustu hendur lagðar á jólaundirbúningin. Gulla og drengirnir fóru svo í jólagjafadreifingu til langafa og -ömmu á meðan ég gat pakkað inn gjöfum og laumað undir jólatréð í ró og næði.
Við höfðum kengúru í matinn annað árið í röð og hún var mjög góð. Þó held ég að við höfum verið full lengi með forréttinn svo hún var aðeins of lengi í ofninum. Ég held að allir hafi síðan orðið mjög sáttir með jólagjafirnar. Ég fékk bókina sem mig langaði í, Making Money eftir Pratchett, skyrtu, bindisnælu og steikarmæli frá fjölskyldunni, pott, konfekt og belti frá tengdaforeldrunum, aðra bindisnælu frá Bjössa og Önnu Láru, konfekt frá Jóa og Kötu krúttlega mynd af þeim og fallega svuntu og ofnhanska frá pabba og mömmu. Þetta er allt saman eitthvað sem mig langaði í og kem til með að nota. Það eina sem vantar upp á listann er 28 sentímetra panna en hana kaupi ég bara sjálfur eftir jól.
Ég læt þetta nægja að sinni. Það hefur snjóað meir og nú er þykkur og blautur snjór yfir öllu.