Það fór allt í hávaðaloft vegna þess að Vodafone notaði íslenska fánann í auglýsingu. Reyndar er hann líka í kaffiauglýsingunum með Kristni R. Ólafssyni þó enginn hafi kvartað undan því. Munurinn felst líklega í því að Merrild notar fánann á smekklegan hátt en Vodofone ekki (að mínu mati), en er hægt að banna mönnum að vera ósmekklegir? Það varð líka hávaði í samfélaginu vegna þess að gert var grín að þjóðsöngnum á einhverri samkomu hjá ungum framsóknarmönnum (sem er reyndar oxymoron). Spaugstofan gerði slíkt hið sama fyrir stuttu og skapaði ekki mikið umtal. Nú veit ég ekki hvernig þetta var gert hjá SUF svo ég veit ekki hvort þeir voru ósmekklegri en Spaugstofan. Hins vegar er textinn við þjóðsönginn þvílíkt hrat og leirburður að hann gerir eiginlega grín af sér sjálfur.
Sjálfum finnst mér siðleysi alvarlegra en smekkleysi. Siðleysi sem felst meðal annars í því að vísa hælisleytendum úr landi án þess að skoða mál þeirra, tryggja sjálfum sér svimandi háa starfsloka-, kaupréttar- og eftirlaunasamninga, stinga af með trúanaðarskjöl, kalla glæpi sína tæknileg mistök, gefa einkavinum sínum kvótann og bankana, o.s.frv. o.s.frv.
Munurinn virðist hins vegar vera sá að smekkleysið er bannað með lögum en siðleysið er bara það; löglegt en siðlaust, eins og einhver sagði (Vilmundur Gylfason). Það er einmitt aðaleinkenni siðleysingjans að skýla sér á bak við lög og reglur. Hann hefur nefnilega ekkert siðferði til að styðjast við og verður því að leita annað.