í dag er síðasti dagurinn fyrir fjölmarga BHM-félaga að greiða atkvæði um kjarasamning BHM við ríkið. Kennarafélög Hí og KHí (kennarafélagið er enn til þó skólinn sé það ekki) greiða atkvæði í næstu viku.
Það er úr vöndu að ráða. Samningurinn felur í sér launahækkun um 20.300 + 2,2%. Það nægir ekki til að koma í veg fyrir kaupmáttarskerðingu miðað við núverandi verðbólguspár. Mér er líka sagt að raunverðmæti launa BHM hafi skerst s.l. þrjú ár. Þetta verði því fjórða árið af kjaraskerðingu. Það er vissulega erfitt að skrifa undir slíkt. Vegna þess að hækkunin er nánast öll í krónutölu en ekki prósentu þá hækka allir nánast jafnt og hlutfallslegur munur milli hæstu og lægstu launa minnkar. Þetta þýðir í raun að dregið er úr mikilvægi menntunar í launamyndun sem er undarlegt hjá stéttarfélagi háskólamanna. Sjálfur er ég raunar hlynntari krónutöluhækkunum en prósentum, það gerir e.t.v. jafnaðarmaðurinn í mér, þó ég telji að meta þurfi menntun að verðleikum þá held ég að 2,2% í einu sé nóg til þess. Það verður líka að líta til þess að ef alltaf eru einungis prósentuhækkanir eykst bilið í krónutölu milli hæstu og lægstu launa óásættanlega mikið.
Það sem mælir hins vegar með því að samþykkja þessa samninga er að þetta er sambærilegt við það sem aðrar stéttir hafa verið að fá og erfitt að sjá afhverju BHM ætti að fá meira (háskólamenn hjá ríkinu hafa reyndar dregist aftur úr háskólamönnum á almennum markaði í launum, og þá er ég að tala um sömu starfsheiti). Samninganefnd BHM telur að án aðgerða verði varla hægt að ná meiru í þetta skipti og hvað myndi það þýða að fara í aðgerðir? Það myndi þýða a.m.k. 2-3 mánuði til viðbótar án samnings, hugsanlega verkfall og samning eftir það sem nánast örugglega myndi ekki dekka kostnaðinn af þessum samningslausu mánuðum eða mismuninn á verkfallsbótum og launum ef til verkfalls kæmi.
Ég er búinn að greiða atkvæði en ætla ekki að gefa afstöðu mína upp. Ég hvet alla BHM-félaga til að kjósa. Hvort sem samningurinn er felldur eða samþykktur skiptir miklu máli að meirihluti félagsmanna standi á bakvið þá ákvörðun.