Nú pönkast almenningur eins og hann mest getur á Óafi F. fyrir að víkja fulltrúa sínum úr skipulagsráði. Sumir hvetja meira að segja samstarfsmenn hans í borgarstjórn til þess að þverbrjóta rétt Ólafs til að hafa sjálfdæmi um það hverja hann skipar sem sína fulltrúa í nefndir og ráð á vegum borgarinnar.
Við skulum ekki gleyma því að Ólafur varð frægur að endemum fyrir að slíta síðasta borgarstjórnarmeirihluta þegar Sjálfstæðisflokkurinn var til í að gefa honum borgarstjórastólinn og kaupa fyrir hann tvo timburhjalla við Laugarveg. Öll hugmyndafræði Ólafs virðist ganga út á það að ekki megi rífa gömul hús í miðbænum, þau eigi að gera upp og það sem byggt sé eigi að vera í samræmi við það sem fyrir er. Ég skal viðurkenna að þessu er ég hjartanlega sammála. Þetta virðist vera eina stefnumál Ólafs (reyndar mjög undarlega orðað sem að það eigi að varðveita 19. aldar götumynd sem er ekki til) og það er þess vegna ekkert undarlegt við það, að þegar fulltrúi hans í ráðinu sem hefur um þetta að segja vill ekki taka undir stefnumálið, að sá verði að víkja.
Við skulum ímynda okkur að fulltrúi Vinstri-grænna í heilbrigðisnefnd Alþingis sæi ekkert athugavert við einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og tæki bara vel í hugmyndir um að einkavæða velferðarkerfið eins og það leggur sig. Þætti einhverjum skrýtið ef VG myndi ákveða að skipta um fulltrúa?
Hanna Birna lýsti því strax yfir að vinningstillagan bryti í bága við stjórnarsáttmála meirihlutans og kæmi ekki til greina. Núna hefur meirihlutinn lýst því yfir að tillögunni verði að breyta. Fulltrúi Ólafs var því kominn í algera andstöðu við allan þann meirihluta sem hún sat fyrir en ekki bara Ólaf með því að vilja ekki hafna tillöguni strax.
Reyndar finnst mér undarleg vinnubrögð hjá skipulagsnefnd að ef tillögur um byggingar samræmast ekki yfirlýstri stefnu þá verði að vinna þær áfram. Ég hefði haldið að rétt væri að fleygja þeim og búa til nýjar sem samræmast stefnunni. Annars enda menn bara með einhverja ömurð sem er jafnvel enn verri en það sem nú liggur fyrir (þó ég efist um að það sé hægt). Mér þóttu skemmtileg orð Magnúsar, sem á að taka sæti Ólafar í skipulagsráði, um að þetta væri akkúrat svona hús eins og væri verið að rífa út um allt í Evrópu af því að þau eru svo ljót.
Einu mennirnir sem hafa lýst því yfir að þeim lítist vel á tillöguna eru Dagur B. Eggertsson og Björn Bjarnason. Annar er úr írbænum og á heiðurinn af nýju Hringbrautinni en hinn er aðdáandi Bruce Willis nr. 1. Eru það mennirnir sem við treystum í skipulagsmálum?
Hingað til hefur verið ríkjandi í skipulagsmálum Reykjavíkur að byggja flatt og dreift í úthverfum og á nýjum svæðum en stóra ljóta kassa í grónum hverfum (Listaháskólinn, hátæknisjúkrahúsið og hverfið sem átti að byggja við Hlíðarenda).
Núna loksins virðist eiga að snúa af þeirri braut, a.m.k. í miðbænum. Ég hlýt að lýsa fullum stuðningi við það. Þó að það sé Ólafur F. sem stendur fyrir því.