Ég hélt að ég væri kominn yfir afneitunina. Ég hélt að ég hefði komist yfir reiðina á undraskömmum tíma. Ég hélt að ég væri kominn yfir í vonleysið og þar sem ég veit að vonin og sáttin fylgja fast á hæla þess í ferlinu þá var ég farinn að horfa fram á betri tíma. Ég hef hins vegar komist að því síðustu tvo daga að ég var ekki kominn eins langt í þessu og ég hélt. Ég var enn í afneituninni. Ég neitaði nefnilega að trúa því að Ingibjörg Sólrún og megin hluti þingmanna Samfylkingarinnar væru eins og he*****s Sjallarnir. Síðustu daga hefur hins vegar komið í ljós að þetta lið ætlar ekki að takast á við vandann, það ætlar ekki að skipta út embættismönnunum sem gerðu afglöp, það ætlar að leiða sömu menn (konur eru líka menn) til valda í bönkunum og komu okkur í þessi vandræði til að byrja með, það ætlar að halda áfram að tryggja vanhæfum Sjálfstæðismönnum ráðherrastóla. Ég efast um að almennir þingmenn Samfylkingarinnar hafi dug í sér til að samþykkja vantrausttillöguna sem nú liggur fyrir Alþingi. Með því eru þeir að taka á sig ábyrgð á stjórnendum bankanna, ábyrgð á þaulsetu vanhæfra embættismanna og ráðherra. Um leið og þeir greiða atkvæði gegn vantraustinu eru þeir orðnir jafn sekir þeim sem hafa framið glæpi gegn þjóðinni. Þeir eru orðnir landráðamenn.
Meðan ég horfði á fréttirnar áðan fann ég hvernig reiðin hélt áfram að vaxa. Samfylkingin ætlar ekki að afnema eftirlaunaósómann, bara breyta honum og vonast til að blekkja almenning með því. Samfylkingin ætlar ekki að afnema ofurlaunin hjá Ríkinu, bara lækka þau og vonast til að blekkja almenning með því. Samfylkingin ætlar ekki að taka á vanda skuldsettra heimila, heldur fresta honum og vonast til að blekkja almenning með því. Samfylkingin ætlar ekki að gera neitt, en ég held að almenningur láti ekki blekkjast. Við höfum verið blekkt of oft til að það virki einu sinni enn.
Hvað getum við gert?
Ég er félagi í stjórnmálaflokki. Ég er félagi í Samfylkingunni. Ég gæti sagt mig úr henni en það myndi ekki hafa nein áhrif. Ég get sent þingmönnum míns flokks bréf og útskýrt fyrir þeim að þeir verði að slíta stjórnarsamstarfinu fyrst þeir ætla ekkert að gera í málunum hvort sem er, en ég efast um að þeir taki mark á því (e.t.v. samt ef allt Samfylkingarfólk sem er sammála mér gerði það). Ég get mætt á alla fundi sem Samfylkingin heldur (flokkurinn þorir reyndar ekki að halda neina fundi þessa dagana af ótta við að þurfa að hlusta á rödd félagsmanna) og krafist afsagnar þessa fólk en á það verður ekki hlustað heldur.
Það eina sem ég get gert er að vera rödd í fjöldanum og ef þær raddir eru nógu margar getur Samfylkingin ekki annað en hlustað á þær. Flokksfélögin út um allt land verða að fylgja í kjölfar félagsins í Reykjavík og álykta um nauðsyn þess að hafa kosningar eins fljótt og auðið er, um að forystan segi af sér, um að það verði eitthvað gert.
Um leið og það verður boðað til flokksfundar á Akureyri þá mæti ég þangað og hef hátt. Ég skal sækjast eftir því að komast á Landsfund og ef ég kemst þangað mun ég krefjast þess að ALLIR núverandi forystumenn hætti.
Að lokum vil ég segja þetta við Ingibjörgu Sólrúnu: Ef stjórn björgunarsveitarinnar hefði hvatt menn til að leggja í háskaför upp á hálendið og beitt sér fyrir því að afnema allar viðmiðanir um lágmarksöryggisbúnað, ef hún hefði beitt áhrifum sínum til að bifreiðaskoðun veitti ófyllnægjandi bílum þessara manna skoðun, ef hún hefði skellt skollaeyrum við aðvörunum annarra um að þetta væri brjálæði, ef hún hefði farið í sérstakar ferðir til að reyna að sannfæra fólk um að það væri ekkert athugunarvert við að hleypa illa búnum viðvaningum upp á hálendi, þá væri ekkert athugavert við það að þegar mennirnir lentu í háska og það þyrfti að bjarga þeim þá væri stjórninni ekki treyst fyrir því og þess krafist að hún færi frá og það jafnvel áður en björgunaraðgerðir hæfust og alls ekki seinna en í þeim miðjum. Ingibjörg Sólrún, það eru tæplega 300.000 manns á þessu landi sem eru hæfari til að stjórna því en þú og Geir!
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: nóvember 2008
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir!
Ég mun ALDREI kjósa þig aftur! Það er skilyrði ef Samfylkingin á að fá mitt atkvæði aftur að þú segir af þér!
Hvað ætti maður að kjósa?
Ég er einn þeirra sem vill að boðað verði til kosninga sem fyrst og alls ekki seinna en næsta vor. Málið er hins vegar það að ég veit ekkert hvað ég ætti að kjósa og er ég þó félagsmaður í einum stjórnmálaflokki og hef kosið hann frá því hann var stofnaður. Það er Samfylkingin og enn finnst mér hún skást. Því miður sé ég samt ekki fram á að geta kosið Samfylkinguna miðað við óbreytt ástand þar innanborðs. Ingibjörg Sólrún, Össur, Jóhanna og Björgvin, öll hafa þau brugðist og eru rúin trausti. Ingibjörg neitar að gera breytingar í ríkisstjórn og krefjast afsagnar Seðlabankastjóra (í fleirtölu), forstjóra FME og stjórna beggja þessara stofnana. Það ætti að vera krafa sem varðar stjórnarslit sé henni ekki hlýtt. Orðabelgurinn Össur hefur ekki látið neitt frá sér fara í margar vikur nema ódýr skot á Framsóknarflokkinn og var þó duglegur bloggari fram að því. Jóhanna frestar vandanum fyrir suma en ekki alla, en sá vandi sem frestast stækkar og verður óviðráðanlegur þegar loks kemur að skuldadögum og Björgvin, sem þó ber líklega minnsta sök, hefur enn ekki axlað þá ábyrgð að hafa ekki rekið stjórn og forstjóra FME, hafa ekki sinnt því að komast að hinu raunverulega ástandi og segja af sér. Það eina sem hann hefur gert er að eyða gömlu bloggsíðunni sinni þar sem hann mærði bankana.
Allt þetta fólk verður að fara! Það er ábyrgð hinna ráðherranna tveggja og þingflokksins að hafa ekki komið því til leiðar. Væri ég þingmaður Samfylkingar núna væri ég búinn að krefjast þess á öllum fundum og róa að því öllum árum og sæi ég ekki fram á að það gengi, lýsti ég yfir vantrausti á ríkisstjórnina og settist í stjórnarandstöðu! Meðan almennir þingmenn Samfylkingarinnar gera ekkert til þess að þrýsta á forystuna um að taka siðferðilega réttar ákvarðanir er ekki hægt að kjósa það lið. Eini möguleikinn sem ég sé á því að minn gamli flokkur endurheimti mitt traust (og þá líklega margra sem hafa stutt flokkinn í gegnum tíðina) er með víðtækum mannabreytingum. Ég tek það fram að ég er fyllilega sáttur við stefnu flokksins.
Því miður eru allir hinir stjórnmálaflokkarnir verri, annað hvort vegna spillingar (framsókn og sjallar) eða fáránlegra og óstyðjanlegra stefnumála (VG og Frjálslyndir).
Þá er eiginlega bara Íslandshreyfingin eftir. Á maður að fara að kjósa Ólaf F. og Jakob Frímann? Kemur varla til greina!
En með því að skila auðu eða sitja heima er maður að styðja ríkjandi ástand!
Það ótrúlegasta er samt það að enn í dag finnst fólk á Íslandi sem er svo blint af þjóðernishroka þrátt fyrir öll þau vandræði sem hann hefur leitt okkur í að það þverskallast enn við að viðurkenna að aðild að ESB er óumflýjanleg. Ég vil ekki meina að værum við aðilar þar hefði núverandi ástand ekki komið upp, heldur hinu að það væri ekki jafn slæmt og e.t.v. hefði einhver „vondur útlendingur“ getað haft vit fyrir okkur.
Ég krefst þess því að Samfylkingin geri eitthvað róttækt strax! T.d. að reka FME og hóta stjórnarslitum verði ekki slíkt hið sama ekki gert í Seðlabankanum (fyrir helgi!), reki alla úr „nýju“ bönkunum sem voru í stjórnunarstöðum í þeim gömlu og rífi sig upp á rassgatinu úr þessari meðvirkni sem einkennir hana núna. Að öðrum kosti að ENGINN núverandi þingmaður eða ráðherra gefi kost á sér í næstu kosningum, a.m.k. mun ég gera mitt besta til að koma öðru fólki að ef Samfylkingin ætlar að halda áfram þessum aumingjaskap!
Reiður Samfylkingarfélagi.
P.S. Ingibjörgu Sólrúnu burt! Hvernig gat manneskjan setið 6 fundi með Davíð Oddssyni (ég yrði geðveikur) og svo ekki einu sinni látið bankamálaráðherran vita hvað kom þar fram?
Ósiðleg og líklega ólögleg mismunun
Bretar og Hollendingar segjast illa geta stutt umsókn Íslands um lán hjá IMF, nema gengið verði frá málum sem snúa að Icesave reikningunum. Íslendingar taka þessu eins og snúið roð í hund og segjast ætla að sækja um lán hjá Rússum og Kínverjum. Það á að gera allt nema reyna að leysa vandann.
Nú vaknar að sjálfssögðu sú spurning afhverju Bretar og Hollendingar eru svona stífir á þessu. Þeir geta vel tekið þessar skuldbindingar yfir án þess að það sé mikill baggi á þeim og þeir hljóta að skilja að íslendingar hafa einfaldlega ekki efni á því að standa við þessar skuldbindingar fjárglæframanna og meira að segja það að íslendingum ber ekki skylda til þess samkvæmt alþjóðalögum að ábyrgjast þessar innistæður nema upp að ákveðnu marki og hafa lýst því yfir að það verði gert. Af hverju eru Bretar og Hollendingar þá svona þverir í þessum málum?
Mér þykir líklegt að það stafi af ýmsum ástæðum, en ekki síst því að strax eftir að bankarnir voru teknir yfir kom yfirlýsing frá stjórnvöldum um að innlendar innistæður yrðu tryggðar. Nú gæti verið rétt að vitna í stjórnarskránna, þ.e. 65. grein, þar sem stendur: Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.
Ég leyfði mér að feitletra eitt orðið. ímyndum okkur nú að það hefði verið annar hópur en útlendir innistæðueigendur í íslensku bönkunum sem hefðu verið skildir eftir, t.d. að allar innistæður væru tryggðar nema þær sem svertingjar ættu, allar innistæður þeirra sem eru í þjóðkirkjunni en ekki annarra, innistæður giftra, karlmanna, sjálfstæðismanna?
Það skiptir í raun ekki máli hvaða hópi þú skiptir inn í stað erlendra innistæðueigenda, mismununin og óréttlætið verður strax sláandi, svo er fólk hissa á því að Bretar og Hollendingar skuli vera reiðir.
Nú er ég ekki að segja að íslenska ríkið eigi að ábyrgjast þessar innistæður umfram það sem alþjóðalög krefjast enda mundi það endanlega setja þjóðina á hausinn og gera út um framtíð afkomenda okkar. Ég er bara að benda á að það sé eðlilegra að eitt skuli yfir alla ganga og það sé ólöglegt að mismuna fólki eftir þjóðerni. Það gæti þýtt að ekki sé hægt að ábyrgjast innlendar innistæður umfram þetta lágmark sem alþjóðalög tryggja. En það er óhæft að borga Íslendingi 100% af sinni innistæðu (minna ef það var í áhættusjóðum) en segja Breta og Hollendingi að éta það sem úti frýs! Það er jafnvel hægt að skilja að það sé litið á fólk sem gerir svona lagað sömu augum og hryðjuverkjamenn.
Að lokum legg ég til að spillingarliðið víki.
!
Undarleg forgangsröðun
Núna er tími undirskriftarlistanna á netinu. Það virðist hins vegar undarleg forgangsröðun í gangi í þjóðfélaginu í dag.
Á meðan 3371 hefur skrifað undir það að efna eigi til kosninga og 3350 hafa séð sóma sinn í því að þakka færeyingum fyrir einstakan stórhug í okkar garð, hafa 20.854 skrifað undir að RúV eigi að hverfa af auglýsingamarkaði og 76.385 tekið þátt í áráðursstríði Geirs gegn Brown.
Er nokkuð undarlegt að meðan forgangsröðin er svona hjá Íslendingum að það sé ekkert mark tekið á kröfunni um að ráðamenn axli ábyrgð og segi af sér? Það eru jú sex sinnum fleiri sem finnst mun mikilvægara að geta horft á How to look good naked og Survivor ókeypis og 22 sinnum fleiri sem vilja alls ekki láta líkja sér við túrbanklædda hryðjuverkamenn.
Einkum
Mér sýnist á þessari færslu að bloggarinn skilji ekki orðið einkum. Hann virðist skilja það sem einungis en ekki fyrst og fremst / aðallega. Þetta væri svo sem ekki sórmál fyrir utan það að mér skilst að hann sé íslenskufræðingur.