Ég er einn þeirra sem vill að boðað verði til kosninga sem fyrst og alls ekki seinna en næsta vor. Málið er hins vegar það að ég veit ekkert hvað ég ætti að kjósa og er ég þó félagsmaður í einum stjórnmálaflokki og hef kosið hann frá því hann var stofnaður. Það er Samfylkingin og enn finnst mér hún skást. Því miður sé ég samt ekki fram á að geta kosið Samfylkinguna miðað við óbreytt ástand þar innanborðs. Ingibjörg Sólrún, Össur, Jóhanna og Björgvin, öll hafa þau brugðist og eru rúin trausti. Ingibjörg neitar að gera breytingar í ríkisstjórn og krefjast afsagnar Seðlabankastjóra (í fleirtölu), forstjóra FME og stjórna beggja þessara stofnana. Það ætti að vera krafa sem varðar stjórnarslit sé henni ekki hlýtt. Orðabelgurinn Össur hefur ekki látið neitt frá sér fara í margar vikur nema ódýr skot á Framsóknarflokkinn og var þó duglegur bloggari fram að því. Jóhanna frestar vandanum fyrir suma en ekki alla, en sá vandi sem frestast stækkar og verður óviðráðanlegur þegar loks kemur að skuldadögum og Björgvin, sem þó ber líklega minnsta sök, hefur enn ekki axlað þá ábyrgð að hafa ekki rekið stjórn og forstjóra FME, hafa ekki sinnt því að komast að hinu raunverulega ástandi og segja af sér. Það eina sem hann hefur gert er að eyða gömlu bloggsíðunni sinni þar sem hann mærði bankana.
Allt þetta fólk verður að fara! Það er ábyrgð hinna ráðherranna tveggja og þingflokksins að hafa ekki komið því til leiðar. Væri ég þingmaður Samfylkingar núna væri ég búinn að krefjast þess á öllum fundum og róa að því öllum árum og sæi ég ekki fram á að það gengi, lýsti ég yfir vantrausti á ríkisstjórnina og settist í stjórnarandstöðu! Meðan almennir þingmenn Samfylkingarinnar gera ekkert til þess að þrýsta á forystuna um að taka siðferðilega réttar ákvarðanir er ekki hægt að kjósa það lið. Eini möguleikinn sem ég sé á því að minn gamli flokkur endurheimti mitt traust (og þá líklega margra sem hafa stutt flokkinn í gegnum tíðina) er með víðtækum mannabreytingum. Ég tek það fram að ég er fyllilega sáttur við stefnu flokksins.
Því miður eru allir hinir stjórnmálaflokkarnir verri, annað hvort vegna spillingar (framsókn og sjallar) eða fáránlegra og óstyðjanlegra stefnumála (VG og Frjálslyndir).
Þá er eiginlega bara Íslandshreyfingin eftir. Á maður að fara að kjósa Ólaf F. og Jakob Frímann? Kemur varla til greina!
En með því að skila auðu eða sitja heima er maður að styðja ríkjandi ástand!
Það ótrúlegasta er samt það að enn í dag finnst fólk á Íslandi sem er svo blint af þjóðernishroka þrátt fyrir öll þau vandræði sem hann hefur leitt okkur í að það þverskallast enn við að viðurkenna að aðild að ESB er óumflýjanleg. Ég vil ekki meina að værum við aðilar þar hefði núverandi ástand ekki komið upp, heldur hinu að það væri ekki jafn slæmt og e.t.v. hefði einhver „vondur útlendingur“ getað haft vit fyrir okkur.
Ég krefst þess því að Samfylkingin geri eitthvað róttækt strax! T.d. að reka FME og hóta stjórnarslitum verði ekki slíkt hið sama ekki gert í Seðlabankanum (fyrir helgi!), reki alla úr „nýju“ bönkunum sem voru í stjórnunarstöðum í þeim gömlu og rífi sig upp á rassgatinu úr þessari meðvirkni sem einkennir hana núna. Að öðrum kosti að ENGINN núverandi þingmaður eða ráðherra gefi kost á sér í næstu kosningum, a.m.k. mun ég gera mitt besta til að koma öðru fólki að ef Samfylkingin ætlar að halda áfram þessum aumingjaskap!
Reiður Samfylkingarfélagi.
P.S. Ingibjörgu Sólrúnu burt! Hvernig gat manneskjan setið 6 fundi með Davíð Oddssyni (ég yrði geðveikur) og svo ekki einu sinni látið bankamálaráðherran vita hvað kom þar fram?