Um Icesave og ESB

Þá er búið að samþykkja á Alþingi að sækja um aðild að ESB og senda inn umsókn. Það er vel. Ég hef verið á þeirri skoðun að lí­klega sé betra fyrir okkur (flest) að vera innan ESB en utan og þ.a.l. lí­klega betra fyrir þjóðina í­ heild (þó eflaust sé það verra fyrir einhverja). Mér hefur alltaf sviðið undan því­ að þeir sem hafa þessa sömu skoðun og ég séu kallaðir landráðamenn eða föðurlandssvikarar og lí­ka það að við séum sökuð um að lí­ta á ESB sem einhverja töfraskyndilausn. Það er ESB ekki. Ég áskil mér rétt til að hafna samningnum í­ þjóðaratkvæðagreiðslu ef mér lí­st ekki á hann en þykir lí­klegra að hann verði viðunandi. Ég hef verið á þeirri skoðun að það sé út í­ hött að greiða atkvæði um aðild að ESB nema vita fyrst hvað það þýðir, þ.e. að aðildarsamningur verði að liggja fyrir svo hægt sé að taka afstöðu. Það var meðal annars þess vegna sem ég kaus Borgarahreyfinguna í­ sí­ðustu kosningum. Það olli mér því­ verulegum vonbrigðum þegar þrí­r þingmanna hennar fóru í­ skollaleik með atkvæðin sí­n í­ þessu máli, studdu tvöfalda atkvæðagreiðslu sem var andstæð því­ sem a.m.k. tveir þessara þingmanna höfðu sagt fyrir kosningar og kusu svo gegn aðildarumsókninni þvert á fyrri yfirlýsingar. Það gerðu þeir vegna áhyggja af Icesave. Ég skil vel þær áhyggjur en tel að þarna hafi þeir gert það sem þeir gagnrýndu aðra stjórnmálamenn hvað mest fyrir áður, þ.e. að nota atkvæði sí­n í­ einstökum málum sem skiptimynt fyrir stuðning annars staðar burt séð frá eigin skoðunum eða sannfæringu.

Hvað Icesave varðar hef ég verið á þeirri skoðun að báðir möguleikarnir í­ stöðunni séu slæmir. Af tvennu illu sé þó lí­klegra illskárra að samþykkja samninginn en ekki. Sí­ðan hafa borist ýmsar fréttir um yfirhilmingar, galla á ákvæðum um endurskoðun, misví­sandi útreikninga á greiðslugetu o.s.frv. Staðan í­ dag er því­ sú að ég hef ekki hugmynd um hvort betra sé að samþykkja samninginn eða ekki. A.m.k. er ljóst að stórhættulegt væri að samþykkja hann án fullnægjandi fyrirvara. Ef niðustaðan verður sú að samningurinn verður samþykktur, með eða án fyrirvara, má ljóst vera að hann verður að endurskoða eftir 7 ár þegar fara á að greiða af honum. Þá held ég að samningsstaða okkar verði betri og sterkari ef við verðum innan ESB frekar en utan og ekki sí­ður ef okkur hefur þá tekist að taka upp Evru. Sí­ðast en ekki sí­st verður samningsstaða okkar betri ef okkur tekst á þessum 7 árum að koma höndum yfir allar eigur svokallðra útrásarví­kinga og dæma þeim hæfilega refsingu. Eins og staðan er núna er maður hræddur um að það muni ekki gerast og þeir haldi áfram sí­num vafasömu viðskiptum, jafnvel í­ bönkunum sjálfum á nýjan leik. Fari svo mun það hafa mun meiri og verri áhrif á trúverðugleika okkar og traust en að hafna Icesave samningnum.