Þá eru prófin loksins búin og þau síðustu skriðin í hús frá fjarstöðunum okkar. Framundan er að fara að búa til tengitöflur fyrir öll námskeiðin sem verða fjarkennd í vetur og skella upp drögum að próftöflu haustmisseris. Það er sem sagt nóg að gera í vinnunni.
Þrátt fyrir það ætla ég að fara að setja upp Memento Mori með Freyvangsleikhúsinu. Æfingar í september og sýnt í október. Það hefur verið talað um það lengi að gera eitthvað öðruvísi á haustin og reyna að vera með tvær sýningar á vetri auk kabaretts í stað einnar. Ég ákvað að slá til og koma þessu í framkvæmd núna og vera þá frekar í fríi frá leiklistinni eftir áramótin.
Það er ekki þar með sagt að maður skipti sér ekki eitthvað af Freyvangsleikhúsinu eftir aramót. Maður er jú í stjórn og þá er maður viðloðandi þetta hvort sem maður er með í leikritinu eða ekki.
Það verður því eflaust mjög gaman hjá mér á komandi vetri þrátt fyrir yfirvofandi kaupmáttarrýrnun.