Allt fram að síðustu helgi hafði ég aldrei farið til Siglufjarðar. Því var ákveðið að halda í dagsferð með fjölskylduna og taka smá menningarrúnt í Skagafjörðinn í leiðinni. Eldsnemma um morguninn, klukkan 8:00, var því lagt af stað og Glaumbær í Skagafirði skoðaður. Þetta er víst torfríkasti bær landsins! Verð að segja eins og er að mér fannst þetta ekkert svakalega merkilegt, en það helgast væntanlega af því að ég hef skoðað Laufás í Eyjafirði nokkrum sinnum og þetta er mjög svipað. Glaumbær er reyndar aðeins stærri. Á Glaumbæ er hins vegar mjög skemmtilegt kaffihús með gömlu sniði og þar fékk ég mér skagfirskt sveitabrauð með reyktum laxi. Það var ákaflega gott.
Því næst var ákveðið að skoða nýju sundlaugina á Hofsósi, en á leiðinni þangað lá leiðin framhjá Samgöngusafni Skagafjarðar. Við drengirnir ákváðum að skoða það meðan Gulla sat í bílnum og las. Samgöngusafnið er ákaflega merkilegt samansafn bifreiða í gegnum tíðina og gaman að sjá vel-uppgerða bíla, bæði stóra og smáa. Svakalegast fannst mér að sjá hvað amerísku drekarnir frá ’50 – ’60 voru rosalega stórir. lengd og breidd svipuð og á meðal rútu og þyngdin örugglega álíka líka.
Sundlaugin á Hofsósi var svo dálítið 2007 en ákaflega skemmtileg engu að síður og frábært útsýni úr henni. Las reyndar í Fréttablaðinu þegar ég kom heim að hún lægi undir skemmdum þrátt fyrir að vera glæný því höndum hafi verið kastað til við byggingu hennar. Við fórum líka í kaupfélagið á Hofsósi sem er eitt af fáum „ekta“ sveitakaupfélögum á landinu og svo á nytjamarkað í grunnskólanum. Þar keypti Gulla sleif í stað þeirrar sem ég braut í búsáhaldabyltingunni um árið.
Loks var svo haldið á Siglufjörð og svei mér þá ef það var ekki bara svolítil upplifun. Síldarminjasafnið er mun stærra og meira en ég hafði gert mér í hugarlund og bátahúsið kom mér verulega á óvart. Maður upplifði sterkt hversu svakalegt síldarævintýrið var. Skoðuðum líka Þjóðlagasetrið og úra- og skartgripaverkstæðið en það var meira svona uppfyllingar-eitthvað til að réttlæta hvað miðarnir voru svakalega dýrir 1.200 kall á manninn. Sem er allt í lagi þegar þeir gilda á fjögur söfn. Við fengum okkur svo pizzu á Pizza 67 sem ég hélt að væri þá sá síðasti með því nafni á landinu en kom svo í ljós að hét Torgið þó það stæði Pizza 67 í glugganum.
Að lokum héldum við heim á leið yfir Lágheiðina og það er augljóst að þeim vegi er ekki haldið við lengur. Holurnar og hristingurinn var með þeim ólíkindum að veglykillinn að Hvalfjarðargöngunum losnaði af framrúðunni. Fengum okkur kaffi og súkkulaði á Dalvík og vorum svo komin heim um ellefu.
ígætis dagur.