Menn halda almennt ekki vatni yfir Inception. Ég er ekki einn þeirra. Óþarfi að misskilja það. Mér finnst myndin ekkert vond, illa gerð eða út í hött. Ég mundi meira að segja ganga það langt að segja að þetta sé góð mynd, jafnvel mjög góð mynd. Hún ber vissulega höfuð og herðar yfir það sem Hollywood hefur verið að bjóða undanfarin ár. Þar er kannski komin skýringin á þessu ofsafengna oflofi sem hefur verið hlaðið á Inception. Loksins kemur mynd frá Hollywood sem er ekki innantóm og heilalaus steypa heldur heildstæð og góð hugmynd sem er sett fram af mikilli hæfni í mynd sem er vel gerð og vel leikin (sumir leikara eru þó undantekning frá því, t.d. gæinn sem leikur besta vin aðal (Joseph Gordon-Levitt)). Leonardo DiCaprio á t.d. nokkur góð móment, sem og sú sem leikur konuna hans (Marion Cotillard) (Innan sviga eru þeir sem ég þurfti að fletta upp).
Myndin er samt alls ekki jafn djúp, frumleg og fyllt merkingu og sumir vilja vera láta (Vá, hann brýst inn í draum manns sem er að dreyma í draumnum!). Það hefur verið bent á að svipuð hugmynd var einu sinni notuð í Andrés Önd sögu þar sem Bjarnarbófarnir brjótast inn í draum Jóakims Aðalandar til að stela talnalásnum að peningageyminum. Það er hins vegar alrangt að þessi mynd sé eitthvað stolin úr þeirri sögu enda útfærslan, tilgangurinn og niðurstaðan allt önnur og þessi Andrésar Andar saga örugglega ekki í fyrsta skipti sem sú hugmynd að brjótast inn í draum annarra kom fram.
Þetta er sem sagt mjög góð mynd og á mikið lof skilið. Hún markar engin kaflaskil í kvikmyndasöguna en það er alltaf skemmtilegt þegar menn búa til mynd sem stendur upp úr meðalmennskunni. Það eina sem ég hef út á myndina að setja er í raun hvað umtalið um hana er úr tengslum við raunveruleikann.
Reyndar fannst mér endirinn líka frekar slappur og einföld „lausn“. Sérstaklega þar sem gefnar voru ákveðnar vísbendingar á nokkrum stöðum í myndinni um „dýpri“ og flottari endi.
Ég gef henni samt alveg fjórar stjörnur (af fimm).