Verslunarmannahelgin iðar áfram þótt það hafi verið minna um fólk niðri í bæ áðan en í gærkvöldi. Líklega flestir ennþá þunnir inni í tjaldi. Við horfðum samt á Sollu stirðu, Love-gúrú og töframanninn Jón Víðis. Þetta var ágætis skemmtun og Jón Víðis var alveg frábær. Flottast fannst mér þegar hann fékk lánaðan 500 kr. seðil hjá áhorfanda, braut hann saman og faldi í lófanum, blés svo í hann og þegar hann braut seðilinn í sundur aftur var hann orðinn að 5000 kalli sem áhorfandinn fékk til baka. Ekki slæm ávöxtun það.
Love-gúrú var líka skemmtilegur en gerði þau leiðinlegu mistök að átta sig ekki á því að hann var að skemmta fjölskyldufólki með lítil börn um miðjan dag en ekki drukknum ungmennum að kvöldi. Hann gerði því árangurslitlar tilraunir til að vekja upp stemmingu og fá fólk til að dansa og þegar það tókst ekki átti hann bágt með að dissa ekki fólkið. Talaði um hvað það hefði verið mikið meira stuð í gærkvöldi o.s.frv. Leiðinlegt því fólk var alveg að fíla gúrúinn á sinn lágstemmda fjölskylduhátt.
Svo röltum við okkur niður í bót þar sem var búið að setja upp „leiktæki“. Já Hannesarkommurnar eru verðskuldaðar. Þarna var að sjá rafmangsgokartbíla sem náðu 3 km hraða, hoppukastala, uppblásna rennibraut, handsnúna kaffibolla (nenni eiginlega ekki að útskýra þetta nánar) og uppblásinn boxhring með risaboxhönskum. Sem sagt frekar leim allt saman en þó í lagi. Ef ekki hefði kostað frá tveimur miðum í hvert tæki sem voru seldir okurverði í einhverri búllu á staðnum þar sem líka var hægt að fá Kandífloss í poka fyrir 600 kr. Þrátt fyrir þetta var löng biðröð við hvert „tæki“. Ég lofaði mínum drengjum bara góðum drekkutíma og svo fórum við heim. Borga í hoppukastala!?! Ég er svo yfir mig hneykslaður.
Núna erum við að fara út í Sandvík þar sem við verðum til morguns. Bæ á meðan.