Þá er kominn óðinsdagur og það linnir ekki gestaganginum. Núna er Eggert vinur minn í heimsókn ásamt sinni einkakvinnu, börnum, tengdaföður og þýskum vini hans. Sem betur fer þarf ég nú ekki að skjóta skjólshúsi yfir allan þennan flokk því þau eru með húsbíl meðferðis. Það er flott græja. Mikið hlýtur að vera gaman að ferðast um landið á svoleiðis, stoppa þar sem manni sýnist og hafa í raun alltaf litla íbúð með sér hvert sem maður fer.
Eggert, Fanney (einkakvinnan) og Klaus (þýski vinurinn) drógu mig með sér á pöbbarölt í gærkvöldi og við byrjuðum á Bláu Könnunni og sátum þar úti og sötruðum bjór. Dásamlegt veður og erlendis stemming. Bláa Kannan lokaði svo rétt fyrir tólf og við áttum í erfiðleikum með að finna nýjan stað. Kaffi Amor var að loka og þar var okkur bent á Kaffi Akureyri. Það virtist vera einhver subbustaður. Okkur var sagt að það væri verið að loka vegna viðhalds en fengum samt að fara á klósettið þarna. Inni á kvennaklósetti fann Fanney áfengisdauða kona og héldum við því áfram og ákváðum að tékka á Kaffi Karólínu áður en við héldum bara heim. Þar reyndist vera opið og við gátum fengið okkur annan bjór áður en haldið var í háttinn. Það er orðið gífurlega langt síðan ég hef farið á svona pöbbarölt og það var bara gaman af því að rifja upp gamla stemmingu með Eggerti.
Læt þetta nægja í bili. Skelfing að heyra þetta með Davíð Oddsson. Er ekki ákaflega erfitt að lifa án skjaldkirtils? Maður hefur á tilfinningunni að hann sé ákaflega mikilvægur. Maður hefur a.m.k. bara einn svoleiðis en tvö nýru svo það hlýtur að vera alvarlegra ef það þarf að fjarlægja hann heldur en eitt nýra.