Jón Baldvin Hannibalsson er merkilega mikið í umræðunni á netinu þessa dagana miðað við sendiherra í Finnlandi. Fólk er að velta því fyrir sér hvort hann hyggi á endurkomu í íslensk stjórnmál og þá hvort það sé gott mál eða slæmt. Margt gott er hægt að segja um Jón Baldvin og feril hans í stjórnmálum á Íslandi. T.d. er aðild okkar að EES liklega eitt það besta sem komið hefur fyrir landið á síðasta áratug síðustu aldar (jafnvel tveimur síðustu). Hann þurfti hins vegar að gera ansi margt til að koma því í kring og yfirlýsingar hans um veigamikil mál undanfarið eru ekki á þann veg að það virki hvetjandi að fá hann í stjórnmálin. Enda hans helsta afrek fyrir utan EES að koma fylgi Alþýðuflokksins í sögulegt lágmark!
Jón virðist hafa missskilið frumvarpið um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og segist vera fylgjandi því vegna þess að hann hafi alltaf verið á móti æviráðningum. Ég veit ekki til þess að æviráðningar hafi tíðkast lengi, þó núgildandi lög leyfi þær. Fólk er annað hvort ráðið tímabundið eða ótímabundið. Nýju lögin snúast um að leyfa yfirmönnum að reka starfsfólk án þess að veita því áminningu fyrst. Sem er ótækt.
Jón virðist því bæði vera óhæfur til forrystu og ekki í sambandi við hvað er í raun að gerast í íslenskum stjórnmálum. Enda hefur hann verið fjarverandi lengi. Hitt má hann eiga að hann getur komið mikilvægum málum í gegn og virðist tilbúinn að fórna nokkuð miklu til þess.
Ein af ástæðunum fyrir því að sumir vilja JBH aftur í stjórnmálin er svonefnd forustuekla Samfylkingarinnar. Nú skal ég viðurkenna sem Samfylkingarmaður að þetta er að vissu leyti rétt. Innan samfylkingarinnar eru þó margir góðir einstaklingar af báðum kynjum, s.s. Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðar, Ingibjörg Sólrún, Össur, Katrín, ígúst Ólafur o.fl. Ég held að það sé betra að vera með gott lið með sterka menn í hverri stöðu en eina stjörnu sem hinir elta. Við sjáum hvert það hefur leitt í öðrum flokkum.
Hins vegar aðhyllast sumir foringjastjórnmál og prenta boli með Che Guevara mynd af leiðtoganum og átta sig ekki á því að fyrir aðra snúast stjórnmál um málefni, aðferðir, hugmyndafræði og ákveðna sýn á framtíðina.
Jón Baldvin Hannibalsson er gömul stjarna. Hann er góður álitsgjafi og „grand old man“ hvers orð hafa vigt og ábyrgð. Eftir því sem tíminn líður verður ferill hans eftirminnilegri og afrek hans stærri. (Ég verð t.d. alltaf snortinn þegar ég hugsa til þess þegar JBH hélt til Eystrasaltslandanna áður en þau hlutu formlegt sjálfstæði og var m.a. inni í þinghúsinu Riga meðan sovéskar hersveitir umkringdu það. Aldrei að vita hvað hefði gerst hefði ekki utanríkisráðherra Natólands verið þar inni). Endurkoma hans í íslensk stjórnmál væri bara til að eyðileggja þessa arfleið.