í gærkvöldi fór ég á fund með Kristjáni Þór Júlíussyni bæjarstjóra á Akureyri sem boðað var til með ákaflega skömmum fyrirvara. Reyndar boðaði Kristján bara trúnaðarmenn á sinn fund en þeir vildu hafa okkur í stjórn BKNE með til halds og trausts. Þessi fundur er nú búinn að vera ákaflega mikið í fréttum sem er merkilegt þar sem ekkert fréttnæmt gerðist á honum. Kristján spurði hvernig við tækjum í hugmyndir um að breyta uppbyggingu kjarasamningsins með það sem markmið að taka út mínútuskilgreiningar heldur skilgreina hvað fælist í kennarastarfinu og láta svo hvern skóla um að skipuleggja tíma sinna kennara.
Við tókum ágætlega í þessar hugmyndir með fyrirvörum um ákveðnar viðmiðanir, s.s. hversu margar kennslustundir teldust full vinna, hversu langan tíma þyrfti að miða við sem lágmarksundirbúning o.s.frv. Einnig að kjarasamningar ættu að vera lágmarkssamningar og svo væri hægt að semja um umframkjör við hvert sveitarfélag fyrir sig.
í dag birtist Kristján svo í fréttum með alsherjar-skyndilausn á deilunni sem hann segist hafa talað um við kennara. Kannski var hann á allt öðrum fundi en ég? A.m.k. var ekki lögð fram nein mótuð tillaga á fundinum í gær. Þetta var meira svona almennar umræður þar sem ýmsum hugmyndum var varpað fram og spjallað um þær yfir kaffibolla og diet-kóki.
í ljósi þessa rennur mann nú í grun að hann hafi verið búinn að ákveða þennan fund með menntamálaráðherra fyrirfram og hefði farið á hann og gefið út sömu yfirlýsingar hvað svo sem hefði komið fram á fundinum með trúnaðarmönnum. Ætlu maðurinn sé á leið á þing?
Núna er ég hins vegar að fara á æfingu hjá Freyvangsleikhúsinu. Ég þakka þeim sem hlýddu.