Búinn að vera með fjölskyldunni úti í Sandvík á Hauganesi alla páskana. Mjög huggulegt og dásamlegt. Grilluðum í þessu líka dúndurveðri í dag. Ég efast um að veðrið verði mikið betra í mars á Íslandi en síðustu tvo daga. Blankalogn og heiðskýrt. Hitinn örugglega farið upp í þrjátíuogeitthvað í skjóli í sólinni. Svo var mánudagssýningin á Lóu felld niður vegna lítillar aðsóknar þannig að ég fékk óvænt frí í kvöld og því um að gera að blogga aðeins. Þá eru það næstu fimm lög í Eurovision:
Finnland: Þetta er mjög hugljúft og fallegt lag sem eflaust á eftir að lifa (í Finnlandi). Líklega jafngóð ef ekki betri lagasmíð en íslenska lagið en á samt enga möguleika í Eurovision.
Eistland: Þetta er svona Spice Girls Aloud Nylon dæmi eitthvað og alls ekki gott. Frekar metnaðarlítið og síst það sem maður átti von á frá Eistunum sem hafa yfirleitt alltaf verið með betri þjóðum. Verra en íslenska lagið.
Danmörk: Lagið byrjar mjög illa og svo heldur það áfram að vera slakt þangað til kemur að viðlaginu sem er alveg ágætt en samt ekkert sérstakt. Danir líkt og Eistar eru mér mikil vonbrigði í ár því yfirleitt hef ég mjög gaman af þessum þjóðum. Mun lakara en íslenska lagið.
Kýpur: Þetta er voða svona týpískt hellenskt eitthvað. Hefði aldrei fengið nema 12 stig frá Grikklandi áður en símakosningin kom til sögunnar. Það má líka greina ákveðin tyrknesk áhrif þarna sem eru e.t.v. einhvers konar virðingarvottur gagnvart tyrkneska hluta eyjarinnar. Mjög slakt samt og verra en íslenska lagið.
Búlgaría: Þetta er nokkuð skemmtilegt. Það lekur af þessu lagi austur-evrópustemming einhver og lagið á ekki nokkurn minnsta möguleika á að ná árangri í keppninni en maður kaupir það að búlgarska útvarpið sé fullt af svona tónlist frá morgni til kvölds. Veitir íslenska laginu enga keppni.
BBíB þangað til næst.