107306430270734270

Ég fór og skipti tveimur jólagjöfum í­ dag. Ég hafði nefnilega fengið tvennt af því­ sem um var að ræða. Fátt þoli ég samt verr en fólk sem skiptir jólagjöfunum sí­num. „Æ, varst það þú sem gafst mér ritsafn Þóarins Eldjárn? Ég skipti því­ nú og fékk hundrað Barbara Cartland bækur í­ staðinn!“ Það skiptir ekki máli hvort maður er ánægður eða óánægður með jólagjafirnar sí­nar. Það gilda bara ákveðnar óskráðar reglur um skipti á gjöfum. Þess vegna hef ég ákveðið að það sé kominn tí­mi til að þær séu skráðar:

1. Ef maður fær tvennt af einhverju má skipta öðru eintakinu fyrir hvað sem er.
2. Fötum sem passa ekki má skipta fyrir eins föt í­ réttri stærð (þó er heimilt að fá flí­kina í­ öðrum lit ef vill).
3. Óheimilt er að skipta gjöf af þeirri einföldu ástæðu að manni langi frekar í­ eitthvað annað.
4. Sé manni gefið eitthvað sem þykir annað hvort skelfilega smekklaust eða alger óþarfi má stinga því­ inn í­ geymslu þar sem það sést ekki en þetta er ekki næg ástæða til að skipta gjöfinni.
5. Snyrtivörum (rakspí­ra, ilmvötnum o.s.frv.) er heimilt að skipta fyrir þá lykt sem maður notar hafi maður fengið rangan ilm.
6. Gjafir sem eru heimatilbúnar ber að þakka fyrir sérstaklega hversu ömurlegar sem þær eru (þetta snýr reyndar ekki að skiptum enda ómögulegt að skipta heimatilbúinni gjöf).

Ef þið vitið um fleiri reglur um skipti á jólagjöfum þá látið mig vita.