Alveg fyndist mér það stórmerkilegt ef Demókratar ná ekki meirihluta í báðum deildum bandaríska þingsins í kosningunum. Ekki bara er Bush við stjórnvölinn í Hvíta húsinu og einstaklega óvinsæll, heldur hefur hvert hneykslismálið á fætur öðru verið að koma upp í herbúðum Repúblikana, íraksstríðið er óvinsælt sem aldrei fyrr og efnahagsástandið hefur sjaldan verið verra. Samt lítur út fyrir að Demókratar nái ekki að sigra í kosningunum til beggja deilda! Líklegasta skýringin er sú að þeir eru ekki nógu miklir Ameríkanar. Þ.e. þeir minnast ekki allir á guð í öðru hvoru orði, upphefja Bandaríkin til skýjanna og fordæma allt sem ekki passar inn í sunnudagaskólann í biblíubeltinu (sumir þeirra gera það þó).
ín þess að ég vilji lýsa yfir stuðningi við bandaríska Demókrata þá finnst mér þetta svolítið hliðstætt við stöðu Samfylkingarinnar hér á Íslandi. Það skiptir ekki máli þó allir aðrir stjórnmálaflokkar séu úti skógi að kúka á sig í hverju málinu á fætur öðru, standi fyrir sérhagsmunagæslu og siðspillingu, séu nánast í útrýmingarhættu, þjóðhverfir og innflytjendafælnir, svo andsnúnir ríkidæmi og stéttskiptingu að þeir vilja jafna alla niður á við og búa til nýja Austur-Evrópu á Íslandi, þá minnkar fylgi Samfylkingarinnar. Þrátt fyrir að þar sé á ferð eini flokkurinn (að mínu mati) með skynsama stefnu í efnahagsmálum, umhverfismálum, innflytjendamálum, utanríkismálum o.s.frv. (reyndar ekki alveg nógu góða stefnu í mennta- og heilbrigðismálum en það má laga það). Ég held að ástæðan sé kannski fyrst og fremst sú að Samfylkingin er ekki nógu íslensk.
Tákngerfingar íslendingsins, hinn sjálfstæði bóndi, sjómaðurinn og athafnamaðurinn sem hefur brotist úr fátækt fyrir eigin rammleik, eiga ekki samleið með Samfylkingunni. Það skiptir ekki máli þó þetta séu gjörsamlega úrelt fyrirbæri í dag. Íslendingar vilja stjórnmálaflokka í lopapeysum með uppbrettar ermar, í gúmmítúttum eða vöðlum sem lofsyngja hin íslensku sérkenni í öðru hverju orði (hingað til hefur Framsóknarflokkurinn verið einkar laginn við að höfða til þessara gilda).